Umdeild lög felld úr gildi

AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi í dag úr gildi löggjöf í Texas sem takmarkaði aðgang kvenna að fóstureyðingum. Þetta er fyrsti dómurinn sem varðar fóstureyðingar sem dómstóllinn kveður upp í níu ár.

Löggjöfin, sem var talin í strangara lagi, lagði til að mynda bann við því að fóstureyðingar væru framkvæmdar á læknastofum þar sem engir læknar starfa sem njóta óskertra starfsréttinda á nærliggjandi sjúkrahúsi. Þurftu læknastofur að uppfylla strangar kröfur sem varð til þess að um þriðjungi læknastofa í Texas, þar sem fóstureyðingar voru framkvæmdar, var lokað.

Repúblikanar héldu því fram að löggjöfin verndaði konur á meðan andstæðingar löggjafarinnar sögðu hana takmarka með verulegum hætti aðgengi að fóstureyðingum.

Löggjöfin var samþykkt í Texas árið 2013.

Fimm dómarar vildu fella löggjöfina úr gildi en þrír voru andvígir því.

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, fagnaði niðurstöðunni. Hún sagði að löggjöfin hefði gert það að verkum að nær ómögulegt væri fyrir konur í Texas að finna læknastofur sem framkvæma fóstureyðingar. Dómstóllinn hafi staðfest rétt allra kvenna, sama hvar þær búa, til „öruggrar og löglegrar“ fóstureyðingar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert