Hörð gagnrýni á Clinton í nýrri skýrslu

Trey Gowdy, þingmaður repúblikana og formaður rannsóknarnefndarinnar, kynnir efni skýrslunnar …
Trey Gowdy, þingmaður repúblikana og formaður rannsóknarnefndarinnar, kynnir efni skýrslunnar í dag. AFP

Þingmenn Repúblikanaflokksins saka ríkisstjórn Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, og Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að hafa mistekist að vernda bandaríska sendiráðsfulltrúa í árásinni á ræðismannsskrifstou Bandaríkjanna í líbísku borginni Benghazi árið 2012.

Fjórir Bandaríkjamenn létu lífið í árásinni, þar á meðal sendiherra Bandaríkjanna í Líbíu.

Í nýrri 800 blaðsíðna skýrslu sem rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings gerði og birt var í dag eru Clinton, sem er nú forsetaefni Demókrataflokksins, og starfslið hennar jafnframt sökuð um að hafa neitað að svara spurningum nefndarinnar. Það sé skammarlegt.

Notkun hennar á persónulegu netfangi sínu, á meðan hún gegndi embætti utanríkisráðherra, í stað opinbers tölvupóstsaðgangs, er einnig harðlega gagnrýnd í skýrslunni.

Þó kemur ekkert fram í skýrslunni sem bendir til þess að Clinton hafi viðhaft saknæma háttsemi í tengslum við árásina.

Bandarísk stjórnvöld eru einnig gagnrýnd fyrir að hafa ekki gert sér grein fyrir hvernig öryggismálum var háttað í Benghazi. Vítavert hafi verið að halda úti skrifstofum þar á meðan öryggi starfsfólksins væri ekki tryggt.

Skýrslunnar hefur verið beðið með eftirvæntingu, en rannsóknin er ein sú tímafrekasta og jafnframt umdeildasta í sögu bandarískra stjórnmála.

Talið er líklegt að repúblikanar muni nota niðurstöður skýrslunnar til þess að koma höggi á Clinton fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Þingmenn Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild þingsins höfðu yfirumsjón með rannsókninni á árásinni. Starfaði rannsóknarnefndin í um tvö ár, að því er fram kemur í frétt Reuters.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert