Forsetakosningarnar dæmdar ógildar

Alexander Van der Bellen (t.v.) og Norbert Hofer (t.h.). Sá …
Alexander Van der Bellen (t.v.) og Norbert Hofer (t.h.). Sá fyrrnefndi sigraði í kosningunum sem nú hafa verið dæmdar ógildar. AFP

Stjórnlagadómstóll Austurríkis hefur ógilt niðurstöður forsetakosninganna sem fóru fram í maí. Öfgahægriflokkurinn Frelsisflokkurinn kærði niðurstöðurnar en frambjóðandi hans tapaði naumlega fyrir Alexander Van der Bellen sem græningjar studdu.

Norbert Hofer, frambjóðandi Frelsisflokksins, vann fyrstu umferð forsetakosninganna en tapaði síðan með aðeins tæplega 31.000 atkvæða mun fyrir Van der Bellen í seinni umferðinni. Fyrstu tölur höfðu bent til þess að Hofer hefði naumt forskot en eftir að 700.000 póstatkvæði höfðu verið talin var Van der Bellen lýstur sigurvegari kosninganna.

Frelsisflokkurinn kærði úrslitin vegna þess sem hann kallaði meiriháttar óreglu á framkvæmd kosninganna. Því er meðal annars haldið fram að tugir þúsunda atkvæða hafi verið skoðuð fyrr en kosningalög kveða á um og að sum atkvæði hafi verið talin af fólki sem hafði ekki heimild til þess.

Skoðanakannanir benda til þess að Frelsisflokkurinn vinni sigur þegar næst verður kosið til þings í Austurríki árið 2018. Ótti hluta Austurríkismanna við straum innflytjenda er sagður hafa gefið flokknum byr undir báða vængi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert