Nauðgað á tónleikum með Zöru Larsson

Söngkonan Zara Larsson.
Söngkonan Zara Larsson. Mynd/Youtube

Sænska söngkonan Zara Larsson tjáði sig í dag á Twitter um hræðilegt atvik sem átti sér stað í gærkvöldi þegar hún stóð á sviðinu á tónlistahátíðinni Bråvallafestivalen. Konu á þrítugsaldri var nauðgað á meðan á tónleikunum stóð og hefur atvikið nú verið kært til lögreglu.

„Fjandinn hafi þig sem skammarlaust nauðgar stelpu í miðjum áhorfendaskaranum. Vonandi brennur þú í helvíti,“ skrifar Larsson á Twitter og bætir svo við: „Djöfullinn hafi ykkur strákar sem hafið látið stelpur vera óöruggar á tónlistahátíðum. Ég hata stráka. Hata hata hata.“

Talsmaður lögreglunnar staðfestir að kæra hafi borist. Nauðgunin er sögð hafa átt sér stað á meðal áhorfenda á meðan Zara Larsson stóð á sviðinu. Talsmaður lögreglunnar fullyrðir að kæran sé vegna fullframinnar nauðgunar. „Hér er um að ræða unga konu sem varð fyrir því að einhver fór inn í hana aftanfrá,“ segir talsmaðurinn í samtali við Aftonbladet.

Konan hljóp strax á brott og kærði atvikið til lögreglunnar. „Hún var svo hrædd að hún gat ekki einu sinni litið tilbaka þegar hún hljóp af stað,“ segir talsmaðurinn við fjölmiðla. Lögreglan hefur beðið viðstadda um ábendingar vegna málsins. Engin útlitslýsing liggur fyrir á gerandanum í málinu. 

Sama kvöld var annað brot kært til lögreglunnar. Var þar um að ræða tvær stelpur sem fóru afsíðis á tónleikasvæðinu til að pissa. Tóku þær þá eftir því að ókunnugur maður stóð með kvikmyndavél og tók þær upp. Var atvikið kært til lögreglunnar en lögreglan hefur engin spor í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert