Skömmuð fyrir að orða Íslendinga við sifjaspell

Netfár brast á þegar Frauke Petry lét hnjóðsyrði falla um …
Netfár brast á þegar Frauke Petry lét hnjóðsyrði falla um Íslendinga. AFP

Frauke Petry, leiðtogi stjórnmálaflokksins Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD), hugðist koma höggi á Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, með tísti þar sem Ísland kom fyrir, en kallaði þess í stað yfir sig skriðu árása fyrir orð sín. „Martröð Schäubles: að lenda á móti hinum sifjaspellasólgnu Íslendingum þegar í undanúrslitum,“ skrifaði Petry að morgni sunnudags fyrir leikinn gegn Frökkum.

Greint er frá þessu á vefsíðu blaðsins Merkur og segir þar að fárviðri hafi brotist út á félagsvefnum Twitter í kjölfarið. „Góða frú, þér verðið einfaldlega stöðugt ógeðfelldari,“ sagði í einum ummælum og þóttu þau vinaleg miðað við það sem margir aðrir létu frá sér fara.

Flokkur Petry hefur sett málefni innflytjenda á oddinn. Ætlun hennar mun hafa verið að skjóta á Schäuble vegna viðtals sem hann veitti tímaritinu Die Zeit. Þar lýsti hann yfir því að múslimar myndu leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið opið og fjölbreytilegt og bætti við: „Einangrun myndi skemma okkur, leiða til úrkynjunar okkar vegna innræktar.“ 

Petry brást við netfárinu með því að segja að hún hefði verið misskilin. Tenging ummæla Petry við orð Schäubles blasti þó ekki við notendum á vefnum. „Ummæli Schäubles bar tæplega að taka bókstaflega. Og hann vísaði heldur ekki til Íslands,“ skrifaði einn netverji. „Megi hamar Þórs dynja á þér,“ tísti annar.

Forustumenn flokksins hafa áður lent í netfári á vefmiðlum. Uppnám varð þegar Beatrix von Storch, frammámaður í flokknum, skrifaði á Facebook í janúar að í neyð ættu landamæraverðir að skjóta á konur og börn í röðum flóttamanna. Hún bar því við að fingur hennar hefðu í ógáti skriplað á lyklaborðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert