Byggja hærra til að forðast hafið

Frá Changi-alþjóðaflugvellinum í Singapúr.
Frá Changi-alþjóðaflugvellinum í Singapúr. AFP

Borgríkið Singapúr ætlar að byggja nýja flugvallarbyggingu alþjóðaflugvallar síns hærra en aðra hluta borgarinnar til að verjast hækkun yfirborðs sjávar af völdum loftslagsbreytinga. Þá hafa yfirvöld látið reisa sjóvarnargarða meðfram strandlengju sinni vegna ágangs sjávar.  

Í skýrslu stjórnvalda í Singapúr um loftslagsbreytingar sem birt var um helgina kemur fram að fimmta flugstöðvarbygging Changi-flugvallar verði reist fimm og hálfum metra yfir sjávarmáli. Frá árinu 2011 hafa stjórnvöld gert þá kröfu að allt nýtt endurheimt land standi að minnsta kosti fjórum metrum yfir miðgildi sjávarmáls. Það viðmið var áður þrír metrar.

„Við erum berskjölduð fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og breytileika,“ segir í skýrslunni enda er Singapúr láglend hitabeltiseyja.

Loftslagsbreytingar geti ógnað Changi-flugvelli þar sem meiri hætta er á sjávarflóðum og mikilli úrkomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert