Þarf að tilkynna kynlíf með fyrirvara

45 ára breskur karlmaður verður að tilkynna lögreglu með sólarhringsfyrirvara, …
45 ára breskur karlmaður verður að tilkynna lögreglu með sólarhringsfyrirvara, ætli hann sér að stunda kynlíf.

John O‘Neill, 45 ára breskur upplýsingatækniráðgjafi, segir líf sitt ónýtt eftir að honum var gert að tilkynna lögreglu með sólahringsfyrirvara, ætli hann sér að stunda kynlíf. The Telegraph greinir frá þessu.

Á síðasta ári var O‘Neill hreinsaður af ásökunum um nauðgun, en dómari í málinu taldi hann samt sem áður kynferðislega hættulegan og var hann úrskurðaður sem slíkur. Afleiðingin er sú að O‘Neill verður reglulega að afhenda öll raftæki sín til skoðunar lögreglu og má hann hvorki eiga síma eða önnur tæki sem bjóða upp á samskipti með tali eða textaskilaboðum, né tæki með vafra fyrir alnetið.

Þá verður hann að tilkynna lögreglu með sólahringsfyrirvara um kynferðisathafnir sem hann hyggst stunda, en kossar og kynferðislegt tal flokkast undir slíkt. Þarf hann að fylla út upplýsingar um konuna sem hann ætlar sér að hitta, m.a. nafn hennar, heimilisfang og fæðingardag.

„Ég á að segja konu, sem ég þekki ekki nógu vel til að hafa kysst eða rætt kynlíf við, að í fyrsta lagi vilji ég stunda kynlíf með henni og í öðru lagi að hún muni fá heimsókn frá lögreglu, sem mun segja henni að ég sé mögulega hættulegur, án þess að skýra það nánar.“

Dómsúrskurður kvað á um að nafn O‘Neill birtist ekki opinberlega, en því banni var aflétt í vikunni og vill hann vekja athygli á máli sínu. „Því meira sem fólk veit um þetta, því betra. Ef ekki væri fyrir þennan fyrirvara sem mér hefur verið settur, myndi enginn vita að hægt sé að beita þessum grimmilegu reglum. Nú veit fólk af þeim og ég er ánægður með það.“

Tilkynningarskyldunni hefur verið mótmælt af baráttumönnum fyrir mannréttindum og fór O‘Neill sjálfur í hungurverkfall til að mótmæla. „Ég fór í hungurverkfalli vegna þess að ég er saklaus og hef verið hreinsaður af ásökunum.“ Segir hann lögregluna hunsa niðurstöðu dómstóla og koma fram við sig líkt og sekan mann. Þá geri þessar kvaðir líf hans ómögulegt og segist hann ekki geta lýst óréttlætinu sem það er að vera dæmdur fyrir glæp sem ekki var framinn.

„Ég hef engan möguleika á að vera í vinnu eða sambandi á meðan þessi úrskurður er í gildi. Ég er saklaus maður og lögreglan hefur ákveðið að eyðileggja líf mitt,“ segir O‘Neill, en málið fer aftur fyrir dóm í ágúst og skýrist þá hvort kynlífsbanni hans lýkur eða hvort það verði framlengt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert