99 hershöfðingjar ákærðir

AFP

Tyrknesk stjórnvöld hafa ákært 99 af um 360 hershöfðingjum landsins fyrir meinta aðild þeirra að valdaránstilrauninni misheppnuðu í síðustu viku. Þetta hefur Reuters eftir heimildarmönnum sínum innan tyrkneska stjórnkerfisins.

Fjórtán hershöfðingjar til viðbótar eru í gæsluvarðhaldi vegna meintra tengslna þeirra við tilraunina.

Í morgun greindu tyrknesk stjórnvöld frá því að öllu háskólafólki í landinu hefði verið meinað að ferðast erlendis.

Alls hafa yfir fimmtíu þúsund manns, þar á meðal hermenn, kennarar lögregluþjónar og embættismenn, verið reknir eða handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar á föstudag.

Recep Tayyip Erdogan, forseti landsins, mun funda í dag með öryggisráði og ríkisstjórn landsins í Ankara.

Þetta er í fyrsta sinn sem hann fer til borgarinnar eftir að tilraunin var brotin á bak aftur, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert