Franskir reykingamenn ósáttir

Það gætu verið erfiðir tímar framundan fyrir franska neytendur tegunda …
Það gætu verið erfiðir tímar framundan fyrir franska neytendur tegunda sem eiga á hættu að vera bannaðar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ný lýðheilsulög í Frakklandi gætu bannað sölu nokkurra sígarettutegunda þar sem þær þykja höfða of mikið til neytenda, frönskum reykingamönnum til gremju. Bannið byggir á tilskipun Evrópusambandsins sem kveður á um að tóbaksvörur megi ekki höfða til neytenda með vísunum í persónueinkenni, né innihalda neitt sem stuðlar að tóbaksnotkun.

Í umfjöllun franska dagblaðsins Le Figaro um bannið, segir að þó tilskipun Evrópusambandsins sé „frekar óljós“, nái hún greinilega til vísana til karlmennsku eða kvenleika, auk vísbendinga um að varan sé grennandi eða stuðli að ungleika.

Meðal tegunda sem eiga á hættu að vera bannaðar eru Gitanes, Gauloises, Lucky Strike og Marlboro Gold. Samkvæmt franska heilbrigðisráðunytinu gefa tvær fyrstnefndu tegundirnar til kynna tákn um kvenleika, en merki Gauloises er dansandi kona. Tegundirnar hafa verið hluti af frönsku samfélagi síðan 1910, þegar þær komu á markað og í báðum heimsstyrjöldum þótti það til marks um föðurlandsást að reykja þær, samkvæmt frétt The Guardian um málið.  

Tóbaksframleiðendur hafa skrifað forsætisráðherra Frakka, Manuel Valls, og krafist fundar vegna málsins. Hafa þeir óskað skýringa og færis á að áfrýja banninu áður en nýju lögin verða gefin út, eftir 10 daga. Segja framleiðendurnir franska heilbrigðisráðherrann, Marisol Touraine, túlka reglurnar frjálslega og ásaka hana um ákvarðanatöku byggða á geðþótta.

Í maí síðastliðnum voru samþykkt lög í Frakklandi, sem heimila einungis sölu á tóbaki í hlutlausum umbúðum og taka þau gildi í nóvember. Um 13 milljónir Frakka reykja og um 78.000 dauðsföll í Frakklandi eru rakin til reykinga á hverju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert