Mikil skelfing við árásarstaðinn

Frá Müncehn í dag.
Frá Müncehn í dag. AFP

Vitni að árásinni í München í dag segja mikinn ótta hafa gripið um sig í borginni.

Cansy Muyan, sem býr í nágrenni við Olympia-verslunarmiðstöðina þar sem skotárásin var gerð, segir við breska miðilinn Guardian að hún hafi verið með systur sinni þegar árásin hófst. „Allt í einu sá ég alla hlaupa fram hjá. Búðareigandi sagði okkur að koma okkur í burtu eins hratt og við gætum svo við byrjuðum að hlaupa líka.“

Þá hafi maður grátið á svæðinu, skelfingu lostinn þar sem hann gat ekki náð til dóttur sinnar sem var inni í verslunarmiðstöðinni þegar árásin var gerð.

Barþjónn á knæpu í borginni segir skelfingu vera að grípa um sig meðal borgara, en erfitt sé að vita hvað sé staðfest í fréttum af árásinni. „Við heyrðum af annarri árás um 400 metra frá okkur, sem veldur okkur miklum áhyggjum.“

„Við erum í kjallara svo við upplifum okkur örugg, en ef þú ferð út á götu heyrirðu í sírenum og þyrlum.“

Í samtali við BBC segir Jeanette Winter, fréttamaður í München, að fólk hafi ekki búist við árás í borginni. „Þegar lestarárásin átti sér stað var fólk í áfalli en hugsaði að þetta væri bara einn árásarmaður. Í hreinskilni hélt ég að þetta myndi ekki koma til München. Nú hefur ógnin náð til fallegu borgarinnar okkar. Októberfest verður haldið bráðlega og það er auðvitað skotmark fyrir hryðjuverkamenn. Okkur líður mjög illa núna.“

Annar íbúi í borginni segir í samtali við BBC að mikill hræðsla hafi gripið um sig í verslunarmiðstöðinni. „Fyrir um tveimur tímum kom fólk öskrandi inn í verslunarmiðstöðina. Fólkið sagði að skotárás ætti sér stað fyrir utan, svo öryggisverðir lokuðu dyrunum og sendu okkur upp á fimmtu hæð. Ég er þar núna ásamt 150 öðrum og okkur er sagt að yfirgefa bygginguna ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert