Brennd lík á víð og dreif

Sandalar afganskra mótmælenda á götunni þar sem sprengjuárásirnar voru gerðar.
Sandalar afganskra mótmælenda á götunni þar sem sprengjuárásirnar voru gerðar. AFP

Samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð sinni á tveimur sprengingum í dag í fjölmennri kröfugöngu í Kabúl, höfuðborg Afghanistan. Í það minnsta 61 er látinn og 207 særðir í árás sem sögð er vera sú mannskæðasta sem samtökin hafa framið í borginni til þessa.

Brennd lík og útlimir lágu á víð og dreif um vettvang sprenginganna og sjúkrabílar áttu erfitt með að komast að fórnarlömbunum þar sem yfirvöld höfðu lokað umferðaræðum með stórum gámum til að hindra för mótmælenda.

Særðir flæddu inn á sjúkrahús borgarinnar og brýn áköll eftir blóðgjöfum vegna skorts hafa komið fram á samfélagsmiðlum. Talíbanar, sem eru valdameiri á svæðinu en samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki og stunda nú sínar árlegu sumarárásir, hafa þvertekið fyrir að tengjast árásinni.

Frá mótmælunum áður en sprengjuárásirnar voru gerðar.
Frá mótmælunum áður en sprengjuárásirnar voru gerðar. AFP

Árásin var gerð á kröfugöngu þar sem þúsundir höfðu safnast saman til að krefjast þess að rafmagnslína sem byggja á fyrir milljónir Bandaríkjadala liggi í gegnum Bamiyan-hérað. Þar er mikill skortur á rafmagni og er svæðið eitt það bágstaddasta í Afghanistan. Þar býr mikill fjöldi Hazara sem hafa lengi orðið fyrir mismunun í landinu.

Afganskir sjálfboðaliðar færa lík mótmælenda.
Afganskir sjálfboðaliðar færa lík mótmælenda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert