211 starfsmönnum Turkish Airlines sagt upp störfum

211 starfsmönnum Turkish Airlines hefur verið sagt upp störfum vegna …
211 starfsmönnum Turkish Airlines hefur verið sagt upp störfum vegna meintra tengsla við klerkinn Fethullah Gulen. AFP

Stjórnendur Turkish Airlines hafa sagt upp 211 starfsmönnum vegna meintra tengsla þeirra við Fethullah Gulen, og hegðun sem þykir stangast á við tyrkneska hagsmuni. Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu var samningum starfsmannanna rift þar sem þeir þóttu ekki hafa uppfyllt starfskröfur.

Þá voru uppsagnirnar sagðar í takt við aðgerðir gegn meintum hryðjuverkasamtökum Gulen, og gegn viðhorfum og framgöngu sem stangaðist á við hagsmuni ríkisins og flugfélagsins.

Yfirvöld hafa sakað hinn 75 ára Gulen, sem búsettur er í Bandaríkjunum, um að starfrækja samtök sem þau kalla Fethullah Terror Organisation (FETO) og segja þau hafa skipulagt tilraun til valdaráns. Stjórnvöld í Ankara hafa farið fram á að Gulen verði framseldur til Tyrklands.

Klerkurinn, sem býr í Pennsylvaniu og starfrækir skóla, góðgerðarsamtök og fjölmiðla í gegnum samtök sín, hefur neitað ásökununum.

Í skriflegri yfirlýsingu Turkish Airlines er ítrekað að félagið standi með „hetjulegum og hugrökkum Tyrkjum“ gegn skipuleggjendum hins „illgjarna og ólögmæta“ valdaráns. Félagið hyggist leggja sitt af mörkum til að viðhalda lýðræði í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert