Tengi ekki hælisleitendur við árásirnar

Thomas de Maiziere innanríkisráðherra Þýskalands.
Thomas de Maiziere innanríkisráðherra Þýskalands. AFP

Innanríkisráðherra Þýskalands, Thomas de Maiziere, varaði samlanda sína við því í dag að hræðast hælisleitendur í landinu vegna árásanna síðustu daga.  „Við megum ekki tengja hælisleitendur við þessi einstöku mál sem eru í rannsókn,“ sagði de Maiziere í samtali við fjölmiðilinn Funke.

Síðast í gær sprengdi 27 ára gamall hælisleitandi frá Sýrlandi sig upp fyrir utan vínbar í þýska bænum Ansbach. Hann lést á vettvangi en tólf særðust, þar af  þrír alvarlega.

Sprengjan var falin í bakpoka sem maðurinn var með. Sprengjan innihélt mikið magn af málmi og að sögn innanríkisráðherra Bæjaralands, Joachim Herrmann, hefði sprengjan getað valdið miklu meiri skaða en hún gerði.

Hann gat ekki útilokað að árásin væri hryðjuverk en það er nú í rannsókn.

200 lögreglumenn standa nú vörð um miðborg Ansbach sem hefur verið mörkuð af.

Árásarmaðurinn var þekktur af lögreglu en hann hafði búið í Þýskalandi í tvö ár. Ár er síðan hælisumsókn hans var hafnað en hann var með tímabundið landvistarleyfi vegna ástandsins í heimalandinu. Hann hafði reynt að fremja sjálfsvíg tvisvar áður og verið á geðdeild.

Þetta er þriðja ofbeldisárásin á almenna borgara síðustu vikuna í Bæjaralandi. Á mánudaginn særði 17 ára af­gansk­ur hæl­is­leit­andi fimm lestarfarþega með exi og svo voru níu skotnir til bana af ungum Þjóðverja af írönskum ættum í München á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert