Verður skírð 15. júlí-píslarvottabrúin

Stuðningsmenn Erdogan streymdu að Bosphorus brúnni til að mótmæla valdaráninu.
Stuðningsmenn Erdogan streymdu að Bosphorus brúnni til að mótmæla valdaráninu. AFP

Yfirvöld í Tyrklandi hafa tilkynnt að brúin yfir Bospórussundið við Istanbúl verði endurskírð í kjölfar misheppnaðs valdaráns 15. júlí sl., þar sem reynt var að velta Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta úr stóli.

Brúin, sem var tekin í notkun 1973 og hefur til þessa einfaldlega heitið Bospórusbrú, verður hér eftir nefnd 15. júlí-píslarvottabrúin, að því er Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, tilkynnti blaðamönnum eftir kvöldfund ríkisstjórnarinnar.

Yildirim sagði að ákveðið hefði verið að veita brúnni nýtt nafn þar sem hún var fyrsta skotmark valdaræningjanna og þar létu nokkrir almennir borgarar lífið.

Brúin, sem er á hernaðarlega mikilvægum stað og liggur á mörkum Evrópu og Asíu, var fyrir íbúa Istanbúl eitt fyrsta merki þess að uppreisn væri hafin.

Uppreisnarmenn tóku brúna yfir og nutu við það stuðnings frá herþyrlum sem skutu á hóp stuðningsmanna Erdogans sem streymdu að brúnni. Þeir létu brúna þó á endanum af hendi, eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir miklum fjölda mótmælenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert