Franska lögreglan þekkti árásarmanninn

Tvær konur sitja við bæjarskrifstofuna í Saint-Etienne du Rouvray, þangað …
Tvær konur sitja við bæjarskrifstofuna í Saint-Etienne du Rouvray, þangað sem fólk hefur komið með kerti og blóm í minningu prestsins sem myrtur var í kirkju bæjarins í morgun. AFP

Annar árásarmannanna sem réðust inn í kirkju í Frakklandi í morgun og skáru prest á háls hafði verið ákærður og sætt varðhaldi fyrir tengsl við hryðjuverkasamtök. Hann hafði síðan verið látinn laus gegn tryggingu.

AFP-fréttastofan hefur eftir heimildamanni að hryðjuverkasveit frönsku lögreglunnar hafi þekkt árásarmanninn. Hann hafi í tvígang reynt að fara til Sýrlands í fyrra og eftir að hafa verið látinn laus úr fangelsi þá var honum gert að bera ökklaband sem gerði lögreglu kleift að fylgjast með ferðum hans.

Nágrannar mannsins segja hann áður hafa hótað því að ráðast á kirkju.

„Við vissum öll að hann vildi fara til Sýrlands,“ hefur AFP eftir nágranna fjölskyldu árásarmannsins, sem sagði hann þó aldrei hafa sést fara í moskuna.

Árásarmaðurinn var fyrst handtekinn í Þýskalandi er hann var ekki orðinn 18 ára gamall, við að reyna að komast til Sýrlands.

Hann reyndi síðan að fara til Sýrlands í gegnum Sviss eftir að hann var orðinn 18 ára og var þá handtekinn í Tyrklandi og sendur heim til Frakklands.

Maðurinn var þá ákærður og fangelsaður fyrir að vera í sambandi við glæpmenn sem höfðu tengsl við hryðjuverkahópa. Honum var síðan gert að bera ökklaband, sem gerði lögreglu kleift að fylgjast með ferðum hans, þegar hann var látinn laus úr fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert