Gíslatökumennirnir látnir

Gíslatakan varð skammt frá Rouen í Norður-Frakklandi.
Gíslatakan varð skammt frá Rouen í Norður-Frakklandi. Google maps

Tveir menn sem tóku hóp fólks í gíslingu í kirkju í Frakklandi eru nú látnir. BBC greinir frá þessu. Mennirnir voru vopnaðir hnífum og tóku fjóra til sex í gíslingu í kirkju nálægt Rouen í Norður-Frakklandi. 

Franska fréttastöðin France 3 hélt því fram að meðal gíslanna væru prestur og tvær nunnur, ásamt kirkjugestum. Fréttastofan AFP greinir frá því að einn hafi látið lífið í gíslatökunni en tekur ekki fram hvort um sé að ræða gíslatökumann eða gísl. 

Forseti Frakklands, Francois Hollande, og innanríkisráðherra, Bernard Cazeneuve, eru nú á leið á staðinn. 

Sky News greinir frá því að árásarmennirnir hafi komist inn um bakdyr kirkjunnar á meðan morgunmessan stóð yfir. Að sögn franskra miðla er einn gísl látinn og greinir Le Figaro frá því að það sé presturinn. Þá eru nokkrir aðrir særðir. 

Þar er því einnig haldið fram að einn gíslanna hafi náð að flýja og látið vita af gíslatökunni. Þá hafði hún staðið yfir í margar klukkustundir.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert