Tölvuhakkarar beina sjónum að Rússlandi

Tölvuvírusinn gerir þeim sem honum stjórna kleift að kveikja á …
Tölvuvírusinn gerir þeim sem honum stjórna kleift að kveikja á myndavélabúnaði og hljóðnemum í tölvum.

Rússneskar ríkisstofnanir eru nýjustu fórnarlömb tölvuhakkara að sögn rússnesku leyniþjónustunnar. Fréttavefur BBC greinir frá því að svo nefndur „njósnavírus“ hafi fundist í tölvukerfum 20 stofnana.

Fréttirnar berast í kjölfar ásakana ráðamanna í Bandaríkjunum um að Rússar standi að baki nýlegum tölvuárásum þar í landi, m.a. hjá Demókrataflokknum.

Stjórnvöld í Rússlandi hafa alfarið neitað því að standa að baki tölvuárásunum og sagt ásakanirnar vera andrússneskan áróður.

Rússneska leyniþjónustan gaf ekki upp hverja hún telur bera ábyrgð á árásunum á rússnesku stofnanirnar, en sagði þær þó minna á aðrar tölvuárásir sem nú væru „mikið í umræðunni.“

Árásirnar væru greinilega „skipulagðar og framkvæmdar af fagmönnum“ og að þær hefðu beinst gegn ríkisstofnunum, vísindastofnunum og varnarmálafyrirtækjum, sem og „mikilvægum innviðum ríkisins“.

Tölvuvírusinn gerir þeim sem honum stjórna kleift að kveikja á myndavélabúnaði og hljóðnemum í tölvum, sem og að taka skjáskotsmyndir og fylgjast með því sem slegið er inn á lyklaborðið, að sögn rússnesku leyniþjónustunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert