Birtu nektarmyndir af Melaniu Trump

Melania Trump.
Melania Trump. AFP

Töluverð reiði er nú á samfélagsmiðlum eftir að dagblaðið New York Post birti nektarmyndir af Melaniu Trump, eiginkonu viðskiptajöfursins og forsetaframbjóðandans Donalds Trump, á forsíðu sinni annan daginn í röð. Hafa fjölmargir sakað miðilinn um drusluskömmun (e. slut shaming) og kvenfyrirlitningu. 

Á forsíðu blaðsins, sem er í eigu fjölmiðlamógúlsins Ruperts Murdoch, má sjá Melaniu nakta í faðmlögum við aðra nakta konu, en í gær var mynd af henni einni nakinni á forsíðunni. Myndirnar voru teknar árið 1995 en þá var hún 25 ára gömul og starfaði hún sem fyrirsæta. 

Jason Miller, fjölmiðlafulltrúi Trumps, sagði í samtali við fréttastofuna CNN að myndirnar væru „ekkert til að skammast sín fyrir – hún er falleg kona.“

Fjölmargir hafa tjáð sig á Twitter og benda á að Melania hafi ekki gert neitt rangt og eigi þar af leiðandi ekki að vera úthrópuð með þessum hætti. Þá benda sumir á fáránleika þess að birta nektarmyndir af maka forsetaframbjóðanda með þessum hætti, enda yrðu seint birtar myndir af Bill Clinton, eiginmanni Hillary Clinton, nöktum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert