38.000 látnir lausir til reynslu úr tyrkneskum fangelsum

Sincan fangelsið utan við höfuðborg Tyrklands Ankara. Um 38.000 fangar …
Sincan fangelsið utan við höfuðborg Tyrklands Ankara. Um 38.000 fangar munu hljóta reynslulausn til að rýma fyrir þeim mikla fjölda sem handtekinn hefur verið eftir valdaránstilraunina. AFP

Yfirvöld í Tyrklandi hófu í dag að láta lausa fyrstu þeirra 38.000 fanga, sem þau ætla að láta laus til reynslu. Er þetta gert til að rýma fyrir þeim mikla fjölda sem hefur verið hnepptur í varðhald vegna gruns um tengsl við misheppnaða valdaránstilraun í landinu í síðasta mánuði.

Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra Tyrklands, sagði þetta ekki fela í sér friðhelgi en vera kann að aðgerðirnar nái á endanum til tæplega helmings þeirra sem nú sitja í fangelsum í Tyrklandi.  Rúmlega 200.000 manns eru nú vistaðir í tyrkneskum fangelsum og hefur föngum fjölgað verulega eftir að stjórnvöld hófu herferð gegn þeim sem þau telja tengjast valdaránstilrauninni.

Þeir sem voru dæmdir sekir um morð, hryðjuverk eða glæpi gegn öryggi ríkisins geta ekki hlotið reynslulausn, né heldur þeir sem fangelsaðir hafa verið eftir valdaránstilraunina.

„Aðgerðirnar ná til glæpa sem voru framdir fyrir 1. júlí 2016. Glæpir sem voru framdir eftir 1. júlí eru utan ramma reglugerðarinnar,“ sagði Bozdag í Twitter-skilaboðum. „Reglugerðin mun fela í sér að tæplega 38.000 manns verða látnir lausir úr opnum og lokuðum fangelsum í þessum fyrstu skrefum.“

99.000 af 214.000 kunna að fá reynslulausn

Tyrknesk yfirvöld segja rúmlega 35.000 manns hafa verið hneppta í varðhald eftir að valdaránstilraunin var gerð. 11.600 þeirra hafa hins vegar verið látnir lausir aftur.

Anadolu ríkisfréttastofan sagði Silviri fangelsið í Istanbúl hafa byrjað að láta fanga lausa strax nokkrum tímum eftir að tilkynnt var um aðgerðirnar.

„Ég er mjög glaður af því að ég var látinn laus úr fangelsi. Ég átti ekki von á þessu,“ hefur fréttastofan hefur eftir Turgay Aydin, einum fanganna,  sem þakkaði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta fyrir.

Bozdag sagði í viðtali við A-Haber sjónvarpsstöðina að samkvæmt reglugerðinni þá gætu allt að 99.000 af þeim 214.000 sem nú sitja í tyrkneskum fangelsum hlotið reynslulausn.

Samkvæmt Anadolu þá geta tyrknesk fangelsi hýst 187.351 fanga.

Aðeins nokkrir dagar eru frá því að dálkahöfundur Hurriyet , Akif Beki, fjallaði um að fangelsi landsins væru troðfull eftir herferð stjórnvalda og spurði „hversu marga er hægt að handtaka án þess að auka rýmið?“

AFP-fréttastofan greindi þá frá því að tyrknesk yfirvöld hefðu sagt 2.692 ríkisstarfsmönnum til viðbótar upp störfum í dag  - sem flestir hefðu verið lögreglumenn. Alls hafa um 75.000 manns misst vinnuna vegna meintra tengsla sinna við klerkinn Fethullah Gulen frá því stjórnvöld hófu herferð sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert