Ætlað að liðka fyrir lausn fanganna

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkjastjórn viðurkenndi í dag að 400 milljónir dollara í reiðufé, sem sendar voru til Írans í janúar, hafi verið notaðar til þess að liðka fyrir því að bandarískir fangar væru leystir úr haldi. Áður höfðu bandarískir ráðamenn þvertekið fyrir að tengsl væru þar á milli.

Fjallað er um málið í bandaríska viðskiptablaðinu Wall Street Journal í dag. Ríkisstjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta hefur verið harðlega gagnrýnd vegna málsins. Greiðslurnar jafngiltu lausnargjaldi og yrðu einungis hvatning fyrir írönsk stjórnvöld að handtaka fleiri bandaríska ríkisborgara.

Frétt mbl.is: Tilviljun eða tengdir atburðir

Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, John Kirby, staðfesti að Bandaríkjastjórn hefði ekki sleppt taki sínu á fjármununum fyrr en flugvél með bandarísku föngunum hafði yfirgefið Tehran, höfuðborg Írans. 

„Ef spurt er hvort tengsl voru þarna á milli neita ég því ekki,“ sagði Kirby á blaðamannafundi í dag. Ákveðið hafi verið að nýta sér greiðsluna til þess að tryggja að bandarísku ríkisborgurunum yrði sleppt heilum á húfi.

Wall Street Journal hafði áður haft eftir ónafngreindum bandarískum embættismönnum að tengsl væru á milli greiðslunnar og lausn fanganna og voru svör Kirbys viðbrögð við þeim fréttum.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar höfðu áður sagt að ekki væri um lausnargjald að ræða þar sem Bandaríkin hafi skuldað Íran fjármunina vegna misheppnaðs samnings um vopnaviðskipti fyrir þremur áratugum. Þeir höfðu einnig sagt að um tvö aðskilin mál væri að ræða og að engin tengsl væru á milli þeirra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert