Clinton með 16 prósentustig á Trump

Hillary Clinton hefur ástæðu til að brosa yfir niðurstöðu nýrrar …
Hillary Clinton hefur ástæðu til að brosa yfir niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar í Virginíu sem sýnir hana með gott forskot á Donald Trump. AFP

Ný skoðanakönnun sýnir að Hillary Clinton er með sextán prósentustiga forskot á Donald Trump í Virginíu. Ríkið hefur fram að þessu verið talið eitt þeirra þar sem keppni á milli demókrata og repúblikana um sigur er hörð og er niðurstaðan því áhyggjuefni fyrir forsetaframboð Trump.

Könnun Roanoke-háskóla sýnir að Clinton nýtur stuðnings 48% líklegra kjósenda í Virginíu á móti 32% sem styðja Trump. Frjálshyggjumaðurinn Gary Johnson mælist með 8% fylgi og græninginn Jill Stein 3%. Þegar svarendur voru beðnir að gera upp á milli Clinton og Trump vildu 55% demókratann en 36% frambjóðanda repúblikana.

Clinton nýtur einnig meiri stuðnings innan grasrótar síns flokks en Trump. Þannig styðja 91% demókrata Clinton en 78% repúblikana segjast ætla að kjósa auðkýfinginn. Stuðningurinn við Clinton hefur vaxið frá því í maí en gengi Trump dalað. Clinton skorar einnig betur hjá óháðum kjósendum, 43% gegn 25%, að því er segir í frétt CNN.

Fleiri segjast einnig hafa jákvæða skoðun á Clinton en áður, þó að hlutfallið sé enn lágt. Nú segjast 39% svarenda líta á hana með velþóknun en 45% líst illa á hana. Hlutfallið var 35% gegn 50% í maí.

Á sama tíma hefur afstaða Virginíubúa til Trump orðið neikvæðari. Hlutfall þeirra sem líta jákvætt á frambjóðanda repúblikana stendur í stað í 23% en þeir neikvæðu eru nú 63%, borið saman við 56% í maí.

Frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert