Vara við mesta fólksflótta síðari ára

Konur og börn sem flúðu bæina al-Shirqat og Qayyarah. Íraski …
Konur og börn sem flúðu bæina al-Shirqat og Qayyarah. Íraski herinn lét til skarar skríða gegn Ríki íslams þar til að undirbúa orrustu um Mósúl. AFP

Allt að ein milljón manna gæti lent á vergangi vegna yfirvofandi hernaðaraðgerða í írösku borginni Mósúl til að endurheimta hana úr greipum liðsmanna Ríkis íslams. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna varar við því að fólksflóttinn geti orðið sá mesti í fjölda ára.

Um 200.000 Írakar hafa þegar flúið heimili sín vegna stríðsátaka frá því í mars á þessu ári, að sögn stofnunarinnar. Fjöldinn nemur 3,4 milljónir manna frá ársbyrjun 2014. Íraski herinn undirbýr nú stórsókn gegn íslamistunum í Mósúl en borgin er síðasta höfuðvígi Ríkis íslams í landinu.

„Verra er í vændum. Við spáum því að hún geti leitt til meiriháttar fólksflótta af stærðargráðu sem við höfum ekki séð á heimsvísu í fjölda ára,“ segir Bruno Geddo, fulltrúi flóttamannastofnunarinnar í Írak.

Erfitt hefur reynst að áætla hversu margir búa í Mósúl um þessar mundir en fulltrúar SÞ og fleiri samtaka hafa sagt að allt að milljón óbreyttir borgarar geti enn búið á Mósúlsvæðinu.

Geddo segir að flóttamannastofnunin sé að koma upp nýjum búðum og gera neyðarsendingar reiðubúnar til að tryggja að fólk sem flýr svæðið fái aðstoð sem fyrst. Þrátt fyrir undirbúninginn sé ljóst að ekki verði nógu mörg tjöld fyrir alla sem þurfa á aðstoð að halda. Grípa þurfi til frekari aðgerða.

Írösk stjórnvöld og hjálparsamtök eins og SÞ sættu töluverðri gagnrýni fyrir ófullnægjandi viðbúnað þegar mun færra fólk lagði á flótta þegar stjórnarherinn tók borgina Fallújah aftur í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert