Hjó af sér hönd og fót fyrir tryggingakröfu

Konan sagðist upphaflega hafa orðið fyrir lest.
Konan sagðist upphaflega hafa orðið fyrir lest. AFP

Víetnömsk kona hefur viðurkennt að hafa greitt fyrir að láta taka af sér annan fótinn og hluta handleggs til að geta krafið tryggingafélag sitt um bætur að því er fréttavefur BBC greinir frá.

Konan er sögð heita Ly Thi N er um þrítugt og þóttist hafa orðið fyrir lest, að því er greint er frá í fjölmiðli víetnömsku lögreglunnar. Ly hefur hins vegar nú viðurkennt að hafa borgað vini andvirði 235.000 króna fyrir aflimunina, en tilgangurinn var að krefja tryggingafyrirtækið sem hún er hjá um andvirði 17,5 milljón króna bóta fyrir limamissinn.

Meint vitni að slysinu kallaði á sjúkrabíl eftir að hafa „fundið“ konuna á lestarteinum í Hanoi, en reyndist síðan vera sá sem sá um aflimunina.

Víetnamskir fjölmiðlar segja konuna hafa gripið til þessara ráða til að bjarga fyrirtæki sínu úr fjárhagserfiðleikum.

Mikil skoðanaskipti hafa verið um málið á samfélagsmiðlum í landinu. „Alveg dæmigert tryggingasvindl. Svona brandari myndi hvergi gerast nema í Víetnam,“ sagði Ly Phan á Facebook síðu sinni.

Margir gagnrýndu konuna fyrir aflimunina, á meðan að aðrir sögðu þetta sýna best hversu örvæntingafull hún hljóti að hafa verið.

„Hún hlýtur að horfa fram á gjaldþrot eða þurfa bráðnauðsynlega á peningunum að halda til að gera eitthvað svona. Það er aldrei auðvelt að svíkja tryggingafélög,“ sagði Thanh Phuong Quynh Le í sinni færslu.

Víetnamska lögreglan hefur fellt niður kæru á hendur konunni og vitorðsmanni hennar að sögn dagblaðsins Tuoi Tre og hefur BBC eftir lögmanninum Le Van Luan að það væri erfitt að finna refsilöggjöf sem næði yfir brotið. „Við þyrftum nýja lagagrein fyrir þessa gerð brota,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert