Fundu enn ein göngin

Landamærayfirvöld leita að fólki sem reynir að komast ólöglega yfir …
Landamærayfirvöld leita að fólki sem reynir að komast ólöglega yfir landamærin frá Mexíkó til Bandaríkjanna. AFP

Yfirvöld í Mexíkó hafa uppgötvað leynigöng sem liggja frá ríkinu Sonora yfir landamærin til Arizona í Bandaríkjunum. Göngin fundust þegar lögregla var að skoða lagnir sem liggja yfir landamærin og tók eftir mun á yfirborði steypunnar á einum stað.

Við nánari athugun komu í ljós göng sem töldu 1,5 metra á mexíkósku landsvæði og meira en 30 metra Bandaríkjamegin. Helmingur ganganna var styrktur með viðarbitum en svo virðist sem göngin hafi verið í byggingu og ekki var búið að útbúa útgang á hinum endanum.

Yfirvöld beggja vegna landamæranna finna reglulega göng af þessu tagi, en þau eru gjarnan notuð til að smygla fíkniefnum og fólki yfir landamærin.

Í apríl síðastliðnum uppgötvuðu bandarísk yfirvöld lengstu göng sem hingað til hafa fundist. Þau voru notuð til að flytja fíkniefni milli landanna. Þau göng voru alls 800 metra löng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert