Sögulegur friður í Kólumbíu á miðnætti

Á miðnætti að staðartíma rennur upp söguleg stund í sögu Kólumbíu þegar byssurnar þagna í 52 ára stríði milli stjórnvalda og skæruliðahreyfingarinnar FARC. „Endir átakanna er hér!“ lýsti forsetinn Juan Manuel Santos yfir á Twitter á föstudag, eftir að hann undirritaði tilskipun um endalok aðgerða gegn FARC.

Sem fyrr segir tekur tilskipunin gildi á miðnætti en fimm dagar eru liðnir frá því að friðarviðræðum lauk. Þær hafa staðið yfir frá 2012 og farið fram í Havana á Kúbu.

Ekkert lát var á átökum á meðan friðarviðræðurnar stóðu yfir en stjórnvöld óttuðust að vopnahlé myndi gera hreyfingunni kleift að safna vopnum sínum. Í dag er hún talin telja 7.500 liðsmenn.

Það var ekki fyrr en í júlí 2015 að FARC lýsti yfir einhliða vopnahlé og stjórnvöld svöruðu með því að láta af loftárásum gegn hreyfingunni. Vopnahléð sem tekur gildi á miðnætti markar fyrsta skiptið sem báðir aðilar samþykkja að binda varanlegan enda á átökin.

Friður „verður raunveruleikinn“ skrifaði Rodrigo Londono, leiðtogi FARC, á Twitter. Londono er betur þekktur undir tökunafninu Timoleon Jimenez, eða „Timochenko“.

Samkvæmt kólumbískum fjölmiðlum mun uppreisnarleiðtoginn gefa út vopnahléstilskipanir til undirmanna sinna í dag.

Það er alls ekki víst að þjóðin samþykki friðarsamkomulagið sem …
Það er alls ekki víst að þjóðin samþykki friðarsamkomulagið sem aðilar hafa fagnað síðustu daga og miklar vonir eru bundnar við. AFP

„Eldraun“

„Vopnahléið er í raun enn eitt innsiglið á enda átakanna. Það er eldraun,“ segir Carlos Alfonso Velazques, öryggissérfræðingur við University La Sabana. Að hans sögn hafa endalok elstu deilu Ameríku verið staðreynd í um ár.

Öryggissveitir kólumbískra stjórnvalda og liðsmenn FARC áttu síðast í átökum 8. júlí, samkvæmt rannsóknarstofnuninni Cerac, sem fylgist með ofbeldi meðal vopnaðra fylkinga í Kólumbíu.

„FARC undirbjó sig fyrir D-Dag,“ var fyrirsögn síðustu skýrslu um átökin.

Santos og Timochenko munu undirrita friðarsamkomulagið einhvern tímann á milli 20. og 26. september. Varnarmálaráðherrann Luiz Carlos Villegas vildi ekki svara því í gær hver yrði viðstaddur eða hvar athöfnin færi fram, en Santos  hefur sagt að það gæti gerst í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, í Havana eða Bógóta.

Við undirritun samkomulagsins hefst sex mánaða tímabil þar sem uppreisnarmenn munu safnast saman á fyrirfram ákveðnum stöðum og afhenda fulltrúum Sameinuðu þjóðanna vopn sín.

Að sögn Villegas verður á mánudag upplýst um ákveðna „ganga“ þar sem liðsmenn FARC geta ferðast um að 22 söfnunarstöðum og sex búðum, þar sem þeir afhenda vopnin og hefja vegferðina að borgaralegu lífi.

Forsetinn Juan Manuel Santos gengur í gegnum mannfjölda með lokadrög …
Forsetinn Juan Manuel Santos gengur í gegnum mannfjölda með lokadrög friðarsamkomulagsins. AFP

Endalok FARC sem uppreisnarafls

Áður en til þess kemur mun forysta FARC boða til lokafundar þar sem hreyfingunni verður umbreytt í stjórnamálafl, samkvæmt yfirlýsingu sem gefin var út á laugardag.

Samkundan mun eiga sér stað dagana 13.-19. september, nærri höfuðstöðvum FARC í San Vicente del Caguan í suðurhluta Kólumbíu. Viðstaddir verða 200 fulltrúar, þeirra á meðal 29 manna miðstjórn.

Blaðamönnum og alþjóðlegum gestum hefur einnig verið boðið.

Innan við tveimur vikum síðar, 2. október, ganga íbúar Kólumbíu að kjörborðinu í þjóðaratkvæði um friðarsamkomulagið. Það verður aðeins samþykkt með meirihluta atkvæða, og að minnsta kosti 4,4 milljónum atkvæða. Það jafngildir 13% kjósenda.

„Við stöndum andspænis ef til vill mikilvægustu pólitísku ákvörðun lífs okkar,“ sagði Santos og biðlaði til íbúa landsins um kjósa með von í hjarta og óttalaust.

Enn á eftir að hnýta ýmsa lausa enda, enda hafa fleiri hópar tekið þátt í átökunum sem enn á eftir að semja við.

Þau hafa kostað 260.000 manns lífið, 45.000 er saknað, og þá eru 6,9 milljónir taldar hafa misst heimili sín.

Athygli vakin á þeim þúsundum sem er saknað eftir átök …
Athygli vakin á þeim þúsundum sem er saknað eftir átök síðustu áratuga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert