Búist við eldheitri varnarræðu frá Rousseff

Dilma Rousseff mun fá 30 mínútur til að verja mál …
Dilma Rousseff mun fá 30 mínútur til að verja mál sitt fyrir brasilíska þinginu, sem ákveður nú í vikunni hvort henni verði gert að segja af sér embætti. AFP

Réttarhöld brasilíska þingsins yfir Dilmu Rousseff, sem þurfti að láta af embætti tímabundið sem forseti landsins, munu ná hápunkti í dag þegar Rousseff mun verja sjálfa sig fyrir þingheimi.

Rousseff hefur verið sökuð um að hagræða ríkisreikningum til að dylja vaxandi hallarekstur. Hún hefur hafnað ásökununum og segir ákæruna á hendur sér jaðra við valdarán.

Brasilíska þingið mun nú í vikunni kjósa um það hvort Rousseff verði gert að segja af sér eða hvort hún fái að setjast í forsetastólinn á ný. Til að Rousseff verði gert að segja endanlega af sér verða atkvæði 54 af 81 þingmanni brasilíska þingsins að falla gegn henni.

Brasilíska dagblaðið Folha de Sao Paulo greinir frá því að rætt hafi verið við alla þingmenn og 70 séu þegar búnir að gera upp hug sinn. 52 séu þeirrar skoðunar að forsetinn eigi að segja af sér en 18 telji hana eiga að sitja áfram. 11 þingmenn voru ýmist ekki búnir að gera upp hug sinn eða vildu ekki segja hvernig atkvæði þeirra féllu.

Verði Rousseff gert að segja af sér embætti mun Michel Temer, sem nú gegnir embætti forseta Brasilíu tímabundið, sitja út kjörtímabilið sem lýkur í desember 2018. Temer var varaforseti Rousseff áður en hún var sett af.

Rousseff mun fá 30 mínútur til að flytja mál sitt og segir BBC að búist sé við að hún muni flytja eldheita varnarræðu um stjórnartíð sína. Rousseff hefur áður sagt að ákæran sé kænskubragð stjórnarandstöðunnar, sem vilji binda enda á 13 ára valdatíð Verkamannaflokksins í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert