Glaðleg rödd platar ekki seppa

Ha, sagðirðu dýralæknir? Það þýðir ekkert að reyna að plata …
Ha, sagðirðu dýralæknir? Það þýðir ekkert að reyna að plata besta vininn með því að því að breyta hljómfalli raddarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Hundar skilja bæði merkingu þeirra orða sem eigandinn notar og hljómfall raddarinnar, það þýðir því lítið að tilkynna seppa glaðlegri röddu að hann sé á leið til dýralæknisins. Þetta er niðurstaða rannsóknar ungverskra vísindamanna, sem nýlega birtu grein í fagtímaritinu Science sem sýnir fram á að hundar skilji bæði orð og hljómfall raddarinnar.

Rannsóknir hafa þegar sýnt fram á að hundar bregðast betur við mannsröddinni en úlfar og að þeir geta tengt orð við hundruð hluta, auk þess sem hægt er að segja þeim fyrir verkum með orðunum einum saman. Ungversku vísindamennirnir hafa nú sýnt fram á að hundar nota sömu stöð heilans til að vinna úr tungumálinu og við mennirnir.

Attila Andics og kollegar hans við Eötvös Loránd háskólann í Búdapest í Ungverjalandi fengu 13 fjölskylduhunda til liðs við sig. Hundarnir, sem flestir voru af tegundunum golden retriever eða border collie, voru þjálfaðir til að sitja grafkyrrir í sjö mínútur inni í MRI segulómunartæki á meðan að heilastarfsemi þeirra var skoðuð. Hundarnir voru ekki bundnir og gátu yfirgefið skannann hvenær sem þeir vildu.

Vísindamennirnir fylgdust með virkni heila hundanna og sáu að þeir meðtóku orð sem þeir þekktu óháð hljómfalli raddarinnar og að þeir notuðu vinstra hvel heilans til að vinna úr upplýsingunum, rétt eins og maðurinn. Hlustunarsvæði hægra hvels heilans notuðu hundarnir síðan til að vinna úr hljómfalli raddarinnar líkt og við gerum.

Skilja hvað við raunverulega meinum

Þá sýndi rannsóknin einnig fram á að „verðlaunasvæði“ heila hundsins – það svæði sem hlýtur örvun við jákvæða hluti á borð við klapp og mat — sýndi mikla örvun þegar jákvæð orð voru sögð í jákvæðu hljómfalli.

„Þetta sýnir að hrós getur vel virkað sem verðlaun fyrir hunda, en að það virkar best ef rétta hljómfallið fylgir orðunum,“ hefur Washington Post eftir Andics. „Hundar geta ekki bara skilið muninn á því hvað við segjum og hvernig við segjum það, heldur geta þeir líka sameinað þetta tvennt og skilja þannig hvað orðin raunverulega þýða.“

Vísindamennirnir telja ólíklegt að 15.000 ára samvera hunda með mönnum hafi leitt til þessarar heilastarfsemi. Líklegra sé að hún sé mun eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert