Rousseff steypt af stóli

Dilma Rousseff hefur varið sjálfa sig fyrir þingheimi Brasilíu síðustu …
Dilma Rousseff hefur varið sjálfa sig fyrir þingheimi Brasilíu síðustu daga. AFP

Öldungadeild Brasilíuþings hefur steypt forsetanum Dilmu Rousseff af stóli, með 61 atkvæði gegn 20. Lýkur þar með 13 ára valdatíð Verkamannaflokksins í landinu.

Michel Temer mun fylla skarð Rousseff í þau tvö ár og þrjá mánuði sem eftir eru af kjörtímabilinu. Önnur atkvæðagreiðsla var þá einnig haldin um hvort banna skyldi Rousseff að sitja í opinberu embætti næstu átta árin. Féll sú tillaga.

Rousseff var meðal annars sökuð um að hagræða ríkisreikningum til að dylja vaxandi hallarekstur. Hún hefur hins vegar hafnað ásökununum og segir ákæruna á hendur sér jaðra við valdarán.

Hvað tekur við hjá Rousseff?

Rousseff, sem er 68 ára gömul, hefur ekki verið meinað að gegna opinberu starfi. Á meðan réttarhöldunum stóð sagði hún það „pólitískan dauðadóm“ ef henni yrði steypt af stóli.

Þá verður hún að yfirgefa Alvorada forsetahöllina í höfuðborginni Brasilíu. Ekki er ljóst hvenær hún mun gera það. Heimildarmenn sem standa henni nærri segja að hún muni flytja til borgarinnar Porto Alegre, þar sem dóttir hennar og barnabörn búa.

Hver tekur við forsetaembættinu?

Michel Temer, sem er 75 ára að aldri. Hann var kosinn varaforseti Rousseff en gagnrýnisraddir hafa heyrst vegna þessam, þar sem hann var jú ekki kosinn til að vera leiðtogi landsins.

Hann mætir lítilli velþóknun landa sinna, hann hefur enda einnig komið nálægt ýmsum spillingarmálum. Stjórnmálaskýrendur þar syðra segja fjárfesta þó kunna vel við áætlaðar endurbætur hans í efnahagskerfinu.

Þeir sem grunaðir eru um spillingu tengda ríkisolíurisanum Petrobras hafa sagt að Temer hafi átt hlut að máli. Þá hefur hann auk þess verið dæmdur fyrir brot á lögum um fjármögnun stjórnmálaframboða.

Hvernig er ástand Brasilíu?

Hún stendur höllum fæti. Efnahagskreppan í landinu er sú versta í áratugi. Samdráttur efnahagsins nam 3,8% á síðasta ári og spáð er að hann muni dragast saman um 3,3% til viðbótar á þessu ári. Ellefu milljónir manna glíma við atvinnuleysi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert