Á lífi en með lungnabólgu

Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands.
Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands. AFP

Fyrrverandi forseti Frakklands, Jacques Chirac, er enn á sjúkrahúsi en hann er ekki látinn líkt og orðrómur hefur verið um. Chirac, sem er 83 ára gamall, er með lungnabólgu og fær meðferð við henni á sjúkrahúsinu, segir tengdasonur hans, Frederick Salat-Baroux.

Chirac var lagður inn á sjúkrahús á sunnudag og fór orðrómur um andlát hans af stað eldsnemma í morgun þegar fyrrverandi ráðherra húsnæðismála, Christine Boutin, skrifaði át Twitter „Mort de #Chirac“ (andlát #Chirac).

Salat-Baroux, eiginmaður Claude, dóttur Chirac, biður um að fjölskyldan fái næði á meðan Chirac dvelur á sjúkrahúsi.

Chirac, sem var forseti frá 1995 til 2007, var nýkominn heim frá Marokkó ásamt eiginkonu sinni Bernadette þegar hann var lagður inn á Pitie-Salpetriere sjúkrahúsið í París. Eitt af því sem Chirac er þekktastur fyrir frá því hann var forseti er andstaða hans við innrás Bandaríkjahers í Írak árið 2003. Hann fékk lítilsháttar heilablæðingu árið 2005 er hann var enn forseti og hefur hann sést sjaldan opinberlega eftir það. Í desember í fyrra dvaldi hann tvær vikur á sjúkrahúsi og að sögn fjölskyldunnar var það vegna þreytu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert