Bók eða byssa?

AFP

Tólf lögreglumenn særðust í átökum við mótmælendur í bænum Charlotte í Norður-Karólínu í gærkvöldi og nótt. Hópur fólks kom saman til þess að mótmæla drápi lögreglu á svörtum manni í borginni.

Í frétt BBC kemur fram að mótmælendur hafi eyðilagt merkta lögreglubíla við fjölbýlishús þar sem maðurinn var skotinn til bana. Einn lögreglumaður særðist þegar grjóti var kastað í andlit hans.

Fyrr um daginn var Keith Lamont Scott, 43 ára, skotinn til bana af svörtum lögreglumanni. Scott lést af völdum áverkanna á sjúkrahúsi. Að sögn lögreglu var hann vopnaður byssu og hættulegur. Það stangast á við orð ættingja, sem segja að Scott hafi ekki verið vopnaður byssu heldur hafi hann haldið á bók. Þegar fréttist af dauða hans braust út mikil reiði og ruddust mótmælendur inn á götur sem voru lokaðar vegna atviksins. Lögregla beitti táragasi gegn þeim en það virtist hafa takmörkuð áhrif. 

Á mánudag upplýsti lögreglan í Tulsa í Oklahoma að svartur maður sem lögregla í borginni hafði skotið til bana hefði verið óvopnaður. Hundruð komu saman og mótmæltu við höfuðstöðvar lögreglunnar í Tulsa á mánudagskvöldið.

Á myndskeiðum sést þar sem Terence Crutcher gengur í burtu með hendur upp í loft þegar hann er skotinn af lögreglu. 

Samkvæmt BBC voru lögreglumennirnir í Charlotte að leita að öðrum manni við fjölbýlishúsið þegar Scott var drepinn, að sögn talsmanns lögreglu, Keith Trietley.

Scott hafi komið út úr bifreið vopnaður byssu en farið aftur inn í bílinn. Þegar lögreglumennirnir nálguðust kom Scott aftur út úr bílnum með byssuna og var skotinn af lögreglumönnum þar sem þeir töldu sér ógnað. Hans hafði ekki verið leitað af lögreglu og lá ekki undir grun hjá lögreglu að sögn Trietley. Ekki er bannað samkvæmt lögum í Norður-Karólínu að vera vopnaður. 

Brentley Vinson, lögreglumaðurinn sem skaut Scott, hefur verið sendur í leyfi á meðan málið er í rannsókn.

Kona sem segist vera dóttir Scotts segir að faðir sinn hafi verið óvopnaður og hafi verið að lesa bók á meðan hann beið eftir því að skólabíll sonar hans kæmi. Lögregla hafi fyrst beitt rafbyssu á hann áður en hún skaut hann fjórum sinnum. Hún segir að Scott sé fatlaður. Lögregla hefur ekki tjáð sig um ásakanir hennar en segir að byssa hafi fundist á vettvangi.

Frétt Charlotte Observer

Frá lögreglunni Tulsa en þar var Terence Crutcher skotinn til …
Frá lögreglunni Tulsa en þar var Terence Crutcher skotinn til bana á föstudag. AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert