Komu sprengju fyrir í grafreit

Tyrkneskir lögreglumenn standa vörð framan við höfuðstöðvar PKK flokksins í …
Tyrkneskir lögreglumenn standa vörð framan við höfuðstöðvar PKK flokksins í Diyarbakir, þar sem Kúrdar eru í miklum meirihluta. AFP

Yfirvöld í Tyrklandi greindi frá því í dag að 13 manns, þar á meðal opinberir starfsmenn, hefðu verið hnepptir í varðhald vegna gruns um að hafa ætlað að myrða hátt settan stjórnmálamann með því að koma fyrir sprengju á grafreiði ættmenna hans.

Lögregla fann 640 kg af sprengiefni í grafreit ættingja Mehdi Eker, varaformanns AK- stjórnarflokksins og fyrrum landbúnaðarráðherra, í Diyarbakir borg þar sem mikill meirihluti íbúa eru Kúrdar.

Tyrkneska öryggislögreglan segir sprengiefnið hafa fundist degi áður en von var á Eker í árlega heimsókn hans í kirkjugarðinn, í aðdraganda Eid al-Adha trúarhátíðarinnar.

13 manns voru handtekin vegna málsins og eru sumir þeirra sagðir vera opinberir starfsmenn í Diyarbakir, sem er stærsta borgin í suðausturhluta landsins.

Töluvert hefur verið um skærur milli tyrkneskra stjórnvalda og verkamannaflokks Kúrda (PKK) frá því að vopnahlé milli þeirra var rofið á síðasta ári.

Tyrknesk stjórnvöld hafa frá því í sumar sett tugi borgar- og bæjarstjóra í suðausturhluta landsins af vegna gruns um tengsl við uppreisnarmenn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert