Óku um London til að mótmæla Trump

Breskir aðgerðarsinnar sem eru andsnúnir Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana, óku í dag um götur Lundúna í tveggja hæða strætisvagni og hvöttu Bandaríkjamenn búsetta í Bretlandi til að nýta kosningarétt sinn í komandi forsetakosningum.

Strætisvagninn var skreyttur blöðrum, borðum og plakötum með áróðri gegn Trump. Þar mátti m.a. sjá skilaboð á borð við „Bandaríkjamenn erlendis: Kjósið til að stöðva Trump.“ Mótmælin voru skipulögð af netaðgerðahópinum Avaaz og sungu mótmælendurnir „Stöðvið Trump“ við lag Bruce Springsteen, Born in the U.S.A.

Stoppað var á ýmsum stöðum á leiðinni og fóru mótmælendur þá úr vagninum og notuðu fartölvur til að aðstoða nokkra þeirra Bandaríkjamanna sem á leið þeirra urðu við að skrá sig á kjörskrá.

Um átta milljónir Bandaríkjamanna búa utan Bandaríkjanna og þar af búa um 220.000 þeirra í Bretlandi. Einungis 12% þeirra nýta hins vegar kosningarétt sinn, að því er sagði í yfirlýsingu frá Avaaz.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Reuters/Ipsos þá er nú Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, nú með 4% forskot á Trump. Töldu 42%  þeirra sem tóku þátt í könnunni líklegra að þeir kjósi Clinton, en 38% töldu líklegra að þeir muni kjósa Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert