Parísasamkomulagið færist nær

Frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York.
Frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. AFP

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segist viss um að Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum taki gildi á þessu ári eftir að 31 ríki staðfesti það á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Alls þurfa 55 ríki sem standa fyrir 55% af losun gróðurhúsalofttegunda að fullgilda samninginn til að hann öðlist gildi.

„Meðbyrinn er einstakur,“ sagði Ban sem blés til fundar um Parísasamkomulagið sem ríki heims gerðu í desember á allsherjarþinginu í New York. Á meðal ríkjanna sem bættust í hóp aðila að samningum voru Argentína, Brasilía og Mexíkó.

Samkomulagið kveður á um að aðildarríkin setji fram markmið til þess að ná að halda hlýnun jarðar vel innan við 2°C miðað við fyrir iðnbyltingu og helst innan við 1,5°C ef mögulegt er. Vísindamenn segja að slík hitastigshækkun feli í sér hættu en takist að halda hlýnuninni innan þessara marka verði mögulega hægt að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Nú hafa sextíu ríki staðfest Parísarsamkomulagið, þar á meðal Ísland, eftir að leiðtogar ríkjanna afhentu skjöl þess efnis í New York í dag. Þessi ríki standa fyrir innan við 48% af losun manna á gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænni hlýnun.

Talsmenn aðalritarans segja hins vegar að fjórtán ríki sem standa fyrir 12,58% losunarinnar til viðbótar hafi lýst yfir áformum sínum um að fullgilda samkomulagið áður en árið er úti. Þar á meðal er gert ráð fyrir að Evrópuþingið staðfesti samkomulagið í næsta mánuði. Því sé nærri því öruggt að það taki gildi.

Bandaríkin og Kína, þau tvö lönd sem losa mest allra af gróðurhúsalofttegundum, staðfestu samkomulagið fyrr í þessum mánuði á fundi forsetanna Baracks Obama og Xi Jinping.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert