Engin lausn í sjónmáli í málefnum Sýrlands

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddu …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddu saman án árangurs um málefni Sýrlands. AFP

Enginn niðurstaða fékkst af fundi bandarískra og rússneskra ráðamanna um málefni Sýrlands nú í kvöld og lauk fundinum án þess að fundin yrði leið til að endurvekja vopnahléið sem komið var  á á mánudaginn í síðustu viku.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ekki hafa getað heitið því að hlé yrði gert á loftárásum sýrlenska stjórnarhersins.

„Spurningin núna er hvort það sé einhver raunverulegur möguleiki á því að þoka málum áfram, af því að það er augljóst að við getum ekki hjakkað áfram í sama farinu,“ sagði Kerry.

„Það fyrsta sem við verðum að gera er að finna einhverja leið til að endurvekja trú á ferlinu, ef það er yfirhöfuð hægt,“ sagði hann við lok funda ráðherranna í New York.

Kerry, Lavrov og sendifulltrúar 21 annarra ríkja sem tilheyra alþjóða stuðningshópi Sýrlands eru nú í New York vegna Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Kerry lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn að funda aftur með Lavrov á morgun, til að sjá hvort einhverja lausn væri að finna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert