Fundu sundurbútað lík í frystinum

Í Bangkok.
Í Bangkok. AFP

Lögregluyfirvöld í Bangkok réðust í dag inn í byggingu þar í borg og handtóku fimm erlenda einstaklinga eftir skotbardaga. Í íbúðinni fundu lögreglumenn skotvopn, metamfetamín, fölsuð vegabréf og lík falið í frystikistu.

Meðal handteknu voru þrír enskumælandi menn, vinnukona frá Búrma og eiginmaður hennar. Enn á eftir að staðfesta þjóðerni mannanna þriggja en fjölmiðlar í Bangkok segja tvo þeirra frá Bandaríkjunum og einn frá Bretlandi.

Einn mannanna greip skotvopn og skaut á lögreglu þegar hún réðist til atlögu á íbúðina. Lögreglumaður slasaðist í skotbardaganum.

Þegar komið var inn fannst sundurskorið lík í frysti á jarðhæð byggingarinnar. Fjölmiðlum var upphaflega tjáð af lögreglu að um væri að ræða konu en hún sagði síðar að líkið væri af ljóshærðum útlending.

„Líkami hans var bútaður sundur í sex parta með beittu áhaldi, settur í svartan ruslapoka og settur í frystinn,“ sagði lögreglustjórinn Sanit Mahathavorn.

Á vettvangi fundust einnig, eins og fyrr segir, fölsuð vegabréf, þrjár byssur og metamfetamín.

Lögregla telur að byggingin hafi verið notuð við vafasama iðju af erlendum glæpamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert