Aftökur og pyntingar á vegum lögreglunnar

AFP

Mannúðarsamtökin Human Rights Watch saka pakistönsku lögregluna um aftökur, pyntingar og  handahófskenndar handtökur. Samtökin hvetja stjórnvöld í Pakistan til þess að koma á umbótum innan löggæslu landsins en í nýrri skýrslu er að finna vitnisburð lögreglumanna og fórnarlamba pyntinga.

Alls er rætt við 30 lögreglumenn og 50 fórnarlömb eða vitni að misnotkun lögreglunnar í þremur af fjórum héruðum landsins. Lögreglan er sökuð um að bera ábyrgð á dauða yfir tvö þúsund manns í fyrra. HRW segir að ekkert eftirlit sé með störfum lögreglunnar og oft sé um handahófskenndar aðgerðir að ræða sem beinast jafnvel gegn fólki sem lögreglumönnum er persónulega í nöp við.

Drápin eru síðan sögð sjálfsvörn en oft eru fórnarlömbin úr hópum fátækra, flóttafólks, trúarhópa og landlausra. Allt eru þetta minnihlutahópar sem eiga sér fáa málsvara innan pakistanska réttarkerfisins. Lögreglumennirnir eru sagðir nota kylfur og leðurólar við pyntingar á föngum. Eins er algengt að fætur séu brotnir með járnstöngum, kynferðislegu ofbeldi sé beitt og föngum synjað um svefn. Svo ekki sé talað um andlegt ofbeldi gagnvart föngum. Til að mynda að þurfa að horfa upp á aðra fanga pyntaða.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert