Bað son sinn afsökunar í dagblaði

Frá útskrift lögreglumanna í Frakklandi.
Frá útskrift lögreglumanna í Frakklandi. AFP

Hinn 56 ára Serbi, Brako Djuric, keypti auglýsingapláss í dagblaðinu Politika þar sem hann bað son sinn afsökunar á því að hafa efast um að hann næði að útskrifast úr námi. 

„Ég vil biðja son minn, Ilija Djuric, afsökunar á því að hafa ekki haft trú á því að hann myndi útskrifast frá rafmagnsverkfræðideild,“ stóð í tilkynningunni sem var birt um helgina.

Afsökunarbeiðnin vakti mikla athygli í Serbíu og var deilt víða á samfélagsmiðlum.

„Ilja Djuric, þú ert hetja dagsins,“ sagði einn notandi Facebook.

„Vonandi get ég gert það sama einn góðan veðurdag,“ skrifaði foreldri nemanda sem hefur átt erfitt uppdráttar. Í Serbíu telst það eðlilegt að ungt fólk sé allt að áratug í að ljúka við háskólagráðu.

Branko Djuric sagði við son sinn, sem hafði átt erfitt með námið fyrsta árið í háskólanum, að hann hefði ekki trú á því að hann myndi ná að útskrifast. 

„Ég sagði honum: „Ef þú nærð að útskrifast mun ég biðjast afsökunar opinberlega“,“ sagði pabbinn í viðtali við serbneskan fjölmiðil.

Þegar sonurinn lauk verkfræðigráðu í fjarskiptamálum stóð faðir hans við sitt og pantaði auglýsinguna í blaðinu, sem sló svona rækilega í gegn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert