Árásarmaðurinn var klæddur gömlum hermannabúningi

AFP

Árásarmaðurinn sem skaut níu manns í Houston í gær var klæddur hermannabúningi með nasistamerkjum þegar hann framdi árásina. Lögreglan skaut manninn til bana sem var starfandi lögfræðingur á Houston-svæðinu, að sögn lögreglustjórans í Houston, Martha Montalvo.

Lögreglan hefur ekki viljað nafngreina manninn vegna rannsóknarhagsmuna og að beiðni fjölskyldu hans.

Lögreglustjórinn í Houston, Martha Montalvo.
Lögreglustjórinn í Houston, Martha Montalvo. AFP

Lögregla og vitni segja að maðurinn hafi klukkan 6:30 í gærmorgun, klukkan 11:30 að íslenskum tíma, hafið skothríð þar sem hann stóð við hlið bifreiðar sinnar á bifreiðar sem áttu leið um sem og lögreglu. Maðurinn var bæði vopnaður riffli og skammbyssu og skaut nánast viðstöðulaust, segir Jaime Zamora, tökumaður á sjónvarpsstöðinni KTRK, sem varð vitni að árásinni. Hann telur að 30-50 skotum hafi verið skotið en fjölmargir bílar eru stórskemmdir. Af þeim níu sem særðust í árásinni þurfti að flytja sex á sjúkrahús. Meiðsl þriggja voru minniháttar. Einn er í lífshættu og annar er alvarlega særður en ekki í lífshættu.

Árásarmaðurinn var klæddur í gömlum hermannabúningi með nasistamerki. Að minnsta kosti ein af byssunum sem hann var með er frá því snemma á síðustu öld og var vinsælt vopn meðal glæpamanna á bannárunum í Bandaríkjunum, að sögn lögreglu. Maðurinn var með leyfi fyrir báðum byssunum. 

Að sögn lögreglu er ekki vitað hvað nasistamerkin þýddu fyrir árásarmanninn en á heimili hans fundust ýmsir sögulegir munir tengdir hernaði, meðal annars síðan í þrælastríðinu.

Frétt mbl.is: Lögmaður sem skaut stanslaust

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert