Ásakanir á báða bóga

AFP

Hillary Clinton og Donald Trump tókust á og skiptust á móðgunum í fyrstu kappræðum forsetakosningana í Bandaríkjunum í nótt. Clinton sagði Trump úr takti við raunveruleikann og ásakaði hann um að fara með fleipur. Trump fyrir sitt leiti reyndi að halda aftur af sér og tókst vel upp framan af en fór síðan í vörn og fór halloka þegar leið á kappræðurnar.

„Þú býrð í eigin raunveruleika,“ sagði Clinton um Trump og sakaði hann meðal annars um að hafa byggt pólitískan feril sinn á „rasískri lygi“, þ.e. samsæriskenningunni um fæðingarstað Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Trump ásakaði Clinton hins vegar ítrekað um að vera „týpískur stjórnmálamaður“; bara tal, engar aðgerðir. „Hljómar vel, virkar ekki,“ sagði hann.

Efnahagsmálin voru meðal fyrstu umræðuefna kvöldsins og sakaði Trump Clinton og hina pólitísku stétt um að hafa tapað störfum til Mexíkó og Kína. „Landið okkar þjáist vegna þess að einstaklingar á borð við Clinton ráðherra hafa tekið svo slæmar ákvarðanir varðandi störfin okkar og varðandi það hvað er í gangi,“ sagði hann.

Þá skoraði hann á Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, forsetafrú og öldungadeildarþingmann, að gera grein fyrir störfum sínum. „Þú ert búinn að vera að gera þetta í 30 ár. Af hverju ertu fyrst núna að láta þér detta þessar lausnir í hug?“

Clinton svaraði m.a. með því að saka Trump um hafa svindlað á einstaklingum og smáum fyrirtæjum á viðskiptaferli sínum. Hún krafðist þess að Trump birti skattaframtöl sín, venju samkvæmt, og sakaði hann um að styðja skattalækkanir í þágu hinna ríku.

Trump sagðist myndu birta skattaframtöl sín um leið og Clinton „birti 33.000 tölvupósta sem hefur verið eytt,“ og vitnaði þar til notkunar Clinton á einkapóstþjóni þegar hún var utanríkisráðherra.

AFP

Kappræðurnar fóru fram í Hofstra-háskólanum á Long Island og var stýrt af Lester Holt hjá NBC. Þær kunna að ráða úrslitum um það hvort Bandaríkjamenn eignast sinn fyrsta kvenforseta eða hvort Donald Trump tekst hið ómögulega og flyst í Hvíta húsið.

Það ver vert að minnast þess að þegar viðskiptajöfurinn hrinti kosningabaráttu sinni úr vör í júní 2015 sögðu veðmangarar að líkurnar á því að hann yrði forseti væru 1 á móti 100.

Trump hefur verið sakaður um þekkingarleysi á mikilvægum málefnum en í kvöld reyndi hann að ná höggi á Clinton með því að saka hana um að hafa valdið kaos í Mið-Austurlöndum í ráðherratíð hennar.

Hann virtist hins vegar ekki eiga skýrt svar við því hvað hann hygðist gera til að sigrast á Ríki íslam. „Þú ert að segja óvininum allt sem þú vilt gera. Það skyldi engan undra að þú hefur verið að berjast við Ríki íslam öll þín fullorðinsár,“ sagði hann við Clinton, en þess bera að geta að samtökin hafa aðeins verið til í um áratug.

Clinton á við þann vanda að etja að stórum hluta kjósenda líkar ekki við hana. Henni hefur til að mynda ekki tekist að ná til yngri kjósenda en aðeins 47% kjósenda á aldrinum 18-34 ára segjast munu kjósa í nóvember, samanborið við 74% þegar Barack Obama var fyrst kjörinn forseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert