Borgarfulltrúi kallaður „sæta mús“

Jenny Behrends hefur komið af stað mikilli umræðu um kvenfyrirlitningu …
Jenny Behrends hefur komið af stað mikilli umræðu um kvenfyrirlitningu í þýskum stjórnmálum. Af Twitter

Ungur, þýskur borgarfulltrúi sem vakið hefur máls á kynjamisrétti innan flokks síns, Kristilegra demókrata, hefur hlotið bæði lof og last fyrir hugvekju sína. Upphaf málsins má rekja til þess að karlkyns borgarfulltrúi kallaði hana „sætu mús“.

 Jenna Behrends skrifaði í kjölfarið opið bréf til félaga sinna í Kristilegum demókrötum og sagði m.a.: „Kæru flokksfélagar. Við þurfum að tala saman... um hvernig þið komið fram við konur.“

Ráðherra fjölskyldumála í Þýskalandi hefur blandað sér í umræðuna og sagt að karlrembubrandarar séu „óásættanlegir“.

Þingmaður Græningja tekur undir með Behrends og segir að jafnvel í sínum flokki, þar sem kynjakvóti sjái til þess að konur séu 50% fulltrúa, hafi konur upplifað kvenfyrirlitningu.

Behrends er 26 ára lögfræðingur. Hún segist hafa fundið mikinn stuðning í kjölfar opna bréfsins sem hún birti á bloggsíðu sinni í síðustu viku. Hún hefur hins vegar m.a. gagnrýnt samtök kvenna innan flokksins fyrir að láta ekki til sín taka í umræðunni. Þá segir hún að sumir innan flokksins hafi litið svo á að sig hungraði í athygli og að tilgangur skrifanna væri að kynna sig til sögunnar sem næsta formannsefni kvennasamtakanna.

Í frétt BBC um málið segir að Sandra Cegla, leiðtogi kvennasamtaka Kristilegra demókrata, hafi vakið máls á því að Behrends hefði átt í nánu sambandi við Peter Tauber, ritara flokksins og helsta aðstoðarmanns Angelu Merkel kanslara. Síðar var haft eftir Tauber í dagblaðinu Der Spiegel að hann hafi daðrað við Behrends, en hann hafi fljótt áttað sig á því að þau myndu aldrei verða neitt annað en vinir.

Behrends var mjög hreinskilin í bréfi sínu og gagnrýndi flokkinn fyrir að njóta þess að „dreifa illgjörnu slúðri yfir nokkrum bjórkollum.“ Svo skrifaði hún: „Konur sem eru tilbúnar að sofa hjá til að komast ofar í metorðastiganum eru aðeins til í ykkar dónalegu fantasíum.“

Þingmaðurinn sem uppnefndi Behrends og varð kveikjan að bréfaskrifunum er sagður vera borgarráðsmaðurinn Frank Henkel. Hann er sagður hafa kallað Behrends „sætu, stóru mús“ eftir að hafa kallað dóttur hennar „sætu, litlu mús“. Þá er hann sagður hafa forvitnast um ástarlíf hennar.

Frétt BBC í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert