Bein útsending af barnaníði vaxandi vandamál

„Þeir heimshlutar þar sem mikið er um fátækt, barnavernd er …
„Þeir heimshlutar þar sem mikið er um fátækt, barnavernd er takmörkuð og þar sem auðvelt aðgengi er að börnum eru áfangastaðir barnaníðinga,“ segir í skýrslu Europol AFP

Bein útsending á barnaníði er vaxandi vandamál í netheimum, sem og svo nefnt hefndarklám, að því er greint er  frá í árlegri netglæpaskýrslu evrópsku lögreglunnar Europol. Varar Europol við því að það færist sífellt í vöxt að varnarlaus börn verði fórnarlömb barnaníðinga.

„Barnamisnotkun í beinni útsendingu  virðist vera vaxandi ógn,“ segir í skýrslunni.  Slíkar útsendingar fela í sér að gerandinn deilir misnotkun sinni á börnum á fyrirfram ákveðnum tíma í gegnum fyrirfram skilgreindar netsíður.

„Misnotkunin getur verið „sérsniðin“ að þörfum barnaníðinganna sem falast eftir þjónustunni og fest á filmu,“ segir í skýrslunni

Netglæpum heldur þá áfram að fjölga og tengjast flestir glæpanna svo nefndu hulduneti (darknet) , sem eru dulkóðuð net sem veita þarf aðgang að sérstaklega og sem bjóða notendum upp á aukna leynd.

Líkt og fyrri ár þá koma flestar beinu barnaníðsútsendinganna frá suðausturhluta Asíu, einkum frá Filippseyjum, en tilkynningum frá öðrum löndum fer þó einnig fjölgandi. „Þeir heimshlutar þar sem mikið er um fátækt, barnavernd er takmörkuð og þar sem auðvelt aðgengi er að börnum eru áfangastaðir barnaníðinga,“ segir í skýrslu Europol, sem nefnir þó ekki ákveðin lönd í þessu samhengi.

„Misnotkun barna á netinu er verulega umfangsmikið vandamál,“ sagði Steven Wilson, yfirmaður netglæpadeildar Europol í viðtali við AFP-fréttastofuna.

Wilson  sagði netglæpadeildina einnig hafa orðið vara við aukningu hefndarkláms, þar sem kynferðislegar myndir eru birtar á netinu án samþykkis þess sem á myndinni er og er tilgangurinn jafna sá að valda viðkomandi sárindum og skömm.

Europol vinnur nú að sérstökum myndböndum sem ætlað er að upplýsa ungmenni um hættuna á kynferðislegri misnotkun á netinu og stendur til að dreifa þeim til skóla í hinum ýmsu Evrópuríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert