Vallónía stöðvar Kanadasamning

Norden.org

Fyrirhugaður fríverslunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada er í uppnámi eftir að héraðsþing Vallóníu í Belgíu hafnaði samningum í atkvæðagreiðslu sem fram fór í dag. Fyrir vikið geta belgísk stjórnvöld ekki undirritað fríverslunarsamninginn, en samþykki allra ríkja Evrópusambandsins þarf til þess að staðfesta hann.

Þingmenn í Vallóníu höfnuðu því að heimila ríkisstjórn Belgíu að staðfesta fríverslunarsamninginn með 46 atkvæðum gegn 16. Einn þingmaður sat hjá. Áhyggjur þingmannanna beinast aðallega að félagslegum og umhverfislegum áhrifum samningsins, samkvæmt frétt Euobserver.com.

Fram kemur í fréttinni að niðurstaðan í Vallóníu sé áfall fyrir Evrópusambandið og viðskiptastefnu þess, ekki síst í ljósi þess að viðræður sambandsins um fríverslun við Bandaríkin gangi illa. Gert var ráð fyrir að viðskiptaráðherrar Evrópusambandsins staðfestu samninginn við Kanada á þriðjudaginn í næstu viku en óvíst er hvort af því verður.

Haft er eftir Paul Magnette, forsætisráðherra Vallóníu, að semja þurfi upp á nýtt um fríverslunarsamninginn. Fjögur eða fimm ríki Evrópusambandsins hafi efasemdir um hann. „Við verðum að snúa aftur að samningaborðinu. Við erum ekki eins einangruð í þessu og fólk heldur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert