Mikilvægt skref gegn hlýnun jarðar

Fulltrúar um 150 ríkja náðu í morgun samkomulagi í Kigali, höfuðborg Rúanda, eftir langa og stranga samningafundi að undanförnu sem talið er að eigi eftir að skipta miklu máli í baráttunni gegn gróðurhúsalofttegundum og hnattrænni hlýnun.

Fram kemur í frétt AFP að samkomulagið snúi að því að draga úr notkun á vetnisflúorkolefnum sem í seinni tíð hafa verið notuð meðal annars í ískápa og kælikerfi í stað efna sem hætt var að nota þar sem þau eyddu ósonlaginu. Síðar kom í ljós að þó vetnisflúorkolefni eyddu ekki ósonlaginu stuðluðu þau að aukinni hlýnun jarðar.

Samkomulaginu var fagnað að loknum samningafundinum í morgun. Samkomulagið er talið mikilvægt skref í að standa við Parísarsamkomulagið, loftlagssamning Sameinuðu þjóðanna. Ríkari þjóðir þurfa að draga fyrr úr notkuninni en þróunarlönd eða um 10% fyrir árið 2019, miðað við stöðu mála 2011-2013, og síðan um 85% fyrir árið 2036.

Þróunarlöndum er skipt í tvo hópa og þurfa þau annars vegar að byrja að draga úr notkun vetnisflúorkolefna árið 2024 og hafa dregið úr notkunni um 80% fyrir 2045 og hins vegar að byrja árið 2028 og hafa dregið 85% úr notkuninni fyrir 2047.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundinum í Kigali í gær.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundinum í Kigali í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert