Stefnir í hörkuviðureign í Vegas

Það stefnir í dúndurkappræður í kvöld.
Það stefnir í dúndurkappræður í kvöld. AFP

Þriðju og síðustu kappræður forsetaefnanna Hillary Clinton og Donald Trump fara fram í Las Vegas í nótt en eftir hamagang síðustu daga og vikna má gera ráð fyrir miklum hasar.

Clinton hefur mátt þola leka á tölvupóstum og ræðum sem hún hélt fyrir fjármálafyrirtækið Goldman Sachs, en Trump á í síst minni vandræðum eftir miður falleg ummæli sín um að káfa á konum án samþykkis, sem urðu þess valdandi að margar konur stigu fram og sökuðu hann um nákvæmlega það.

Kappræðunum verður stjórnað af Chris Wallace frá Fox News en til umræðu verða skuldir og bætur, innflytjendur, efnahagsmálin, hæstiréttur, átök erlendis og hæfi til að gegna embætti forseta.

Málefnin eru funheit en allt eins líklegt að umræða um þau muni víkja fyrir persónulegum árásum á báða bóga.

Skoðanakannanir benda til þess að Clinton hafi 7 prósentustiga forskot á Trump, en það er svipaður munur og var á milli Barack Obama og John McCain á sama tímapunkti í aðdraganda kosninganna 2008.

Clinton er jafnvel talin eiga möguleika á því að sigra ríki sem venjulega hallast að forsetaefni Repúblikanaflokksins, s.s. Alaska, Utah og Texas.

Lítið hefur farið fyrir Clinton síðustu daga enda hefur hún verið að undirbúa sig fyrir kappræðurnar. Trump hefur vakið athygli á þessu og gert grín að Clinton fyrir „að vera að hvíla sig“. Kosningateymi Clinton hefur sagt að hún muni reyna hvað hún getur að halda sig við málefnin í nótt og láta ekki Trump setja sig úr jafnvægi með ódýrum skotum.

Sama hversu vel Trump tekst að koma sér hjá því að svara málefnaspurningum, sem hann hefur átt erfitt með, þá kemst hann líklega ekki hjá því að ræða ummæli sín um að „grípa í píkur“ og ásakanir sínar um kosningasvindl.

Það stefnir í hörkuviðureign í Vegas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert