Endurbyggja eða flytja frá Haítí?

Eyðilegging eftir fellibylinn Matthew.
Eyðilegging eftir fellibylinn Matthew. AFP

Íbúar í bænum Chabet á Haíti standa frammi fyrir tveimur kostum; annaðhvort að yfirgefa bæinn eða að endurbyggja heimili sín. Fellibylurinn Matthew hreif öll hús með sér þegar hann fór yfir svæðið í 4. október og skildi eftirlifendur eftir slyppa og snauða.

Val íbúanna er ekki einfalt því skortur á peningum setur stórt strik í reikninginn. Svæðið er meðal þeirra fátækustu í landinu og ekki hlaupið að því að fá lán nema hjá okurlánurum sem eru tilbúnir að nýta sér neyðina. 

Strendur bæjarins sem líktust einna helst paradís áður má líkja við kirkjugarð, þar sem veðurbarin pálmatré voma yfir svæðinu.  

Fólk hefur varla föt til skiptanna.
Fólk hefur varla föt til skiptanna. AFP

Eiga ekki föt til skiptanna

„Svæðið er ónýtt. Það er ekkert eftir og fólk á ekki einu sinni föt til skiptanna,“ segir Hilaire Servilius, sem er 55 ára gamall, þegar hann vafrar um svæðið íklæddur rifinni skyrtu í leit að símasambandi. „Hér fæddist ég og hef alltaf búið en ég neyðist til að fara,“ segir hann. Hann skimar í kringum sig í leit að staðnum þar sem húsið hans stóð.

Hann getur ekki hugsað sér að byggja aftur hús á svæðinu, koma sér fyrir og planta bananatrjám. „Það veit enginn hvort þetta getur komið fyrir aftur. Af hverju að byggja aftur upp hér?“ spyr hann. Servilius hefur haldið lífi með því að búa í plastskjóli. Hann á enga peninga til að koma sér burt af svæðinu. „Ef ég finn einhvern til að hjálpa mér þá mun ég þakka guði fyrir,“ segir hann um leið og hann setur puttann upp í himininn. 

„Ég hef enga von lengur“

„Ég hef enga von lengur. Ég á ekkert nema hungrið og það er sárt,“ segir hinn 75 ára gamli Abraham Roudilhomme. Hann man ekki eftir neinum fellibyl sem hefur verið jafnkröftugur og Matthew og man hann tímana tvenna. Hann á son sem býr í borginni Port-au-Prince. Þegar sonur hans kemur aftur og ef hann finnur hann þá ætlar hann að fara burt með honum.

Hinn 44 ára Jules Sima er staðráðinn í að byggja hús fyrir systur sína og föður sem er 92 ára gamall. Sjálfur býr hann í borginni Les Cayes og keyrir daglega 45 km til að huga að ættingjum sínum í Chabet. 

Það sem stendur honum fyrir þrifum er peningaleysi. Laun hans sem umsjónarmaður í skóla hrökkva skammt. Hann hefur samt náð að nurla saman fjármunum til að kaupa járn og vonast til að geta keypt sement og annað byggingarefni. „Ég get hvergi fengið lán nema hjá okurlánurum sem vilja lána mér á ofurvöxtum,“ segir hann. 

Hann hræðist ekki að byggja hús á staðnum. Hann er ákaflega bjartsýnn og fullur eldmóðs. Hann vitnar í þekkta speki frá Haíti sem segir: „Eins lengi og höfuðið er á er alltaf von um að það geti borið hatt einn daginn,“ segir hann og bætir við: „Maður gefst ekki upp.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert