Samkynhneigðir náðaðir eftir dauðann

Breski stærðfræðingurinn Alan Turing var ofsóttur vegna samkynhneigðar sinnar. Hann …
Breski stærðfræðingurinn Alan Turing var ofsóttur vegna samkynhneigðar sinnar. Hann var náðaður að sér látnum. AFP

Bresk stjórnvöld tilkynntu í dag að þúsundir samkynhneigðra og tvíkynhneigðra karla, sem dæmdir voru sekir um brot á  gömlum lögum um kynferðisglæpi, sem teldust ekki lengur til glæpa, muni nú hljóta náðun að sér látnum.

Ákvörðunin felur í sér formlega náðun fyrir alla þá sem voru dæmdir sekir um að eiga í kynferðislegu sambandi við einstakling af sama kyni á þeim tíma þegar samkynhneigð var talin til glæpa.

Dómsmálaráðherra Bretlands, Sam Gyimah, sagði náðunina verulega mikilvæga, en hún er framhald á þeirri ákvörðun stjórnvalda að náða stærðfræðinginn Alan Turing árið 2013.

Frétt mbl.is: Drottningin náðaði Turing

Turing átti stóran þátt í að leysa kóða ENIGMA-dulkóðunarvélar Þjóðverja á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann var dæmdur sekur um brot á blygðunarlöggjöf með öðrum karlmanni árið 1952 og framdi sjálfsmorð tveimur árum síðar.

Náðunin hefur verið kölluð „lög Turings“ og kveður á um að látnir einstaklingar sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot sem ekki teljast lengur glæpsamleg muni sjálfkrafa hljóta náðun.

Þeir sem enn eru á lífi og voru dæmdir fyrir brot á löggjöfinni hafa nú þegar getað sótt um hjá innanríkisráðuneytinu að fá nafn sitt hreinsað og tekið af sakaskrá. Þeir munu einnig hljóta náðun samkvæmt frumvarpinu um leið og búið er að fjarlægja nafn þeirra af sakaskrá.

„Það er mjög mikilvægt að við náðum einstaklinga sem voru dæmdir sekir um kynferðisglæpi sem þeir teldust saklausir af í dag,“ hefur fréttavefur BBC eftir Gyimah.

Samkynhneigð taldist glæpsamleg á Englandi og í Wales til ársins 1967. Í Skotlandi heimilaði löggjöfin ekki samkynhneigð fyrr en 1980 og árið 1982 á Norður Írlandi.

George Montague, sem var dæmdur sekur um brot á blygðunarlöggjöfinni með karlmanni árið 1974, segist vilja afsökunarbeiðni, ekki náðun.

 „Að fallast á náðun felur í sér að maður hafi verið sekur um eitthvað. Ég var ekki sekur um neitt. Ég var bara sekur um að vera á röngum stað á röngum tíma,“ hefur fréttaþátturinn Newsnight eftir Montague. „Ef ég fæ afsökunarbeiðni þá þarf ég enga náðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert