Tala látinna komin í 79 manns

Fjöldi látinna í mannskæðu lestarslysi í Kamerún á föstudaginn er kominn í 79 manns, en björgunarsveitarfólk hefur lokið leit í flaki farþegalestarinnar sem fór út af teinunum á leið sinni frá höfuðborg landsins, Yaounde, og borgarinnar Douala.

Fram kemur í frétt AFP að ellefu lík hafi fundist í gær í brakinu af farþegalestinni. Rúmlega 500 manns slösuðust þegar lestin fór út af teinunum. Mikill fjöldi var í lestinni þar sem ekki var hægt að ferðast sömu leið með bifreiðum í kjölfar þess að brú hrundi. Fyrir vikið hafði verið bætt við aukavögnum til þess að koma öllum farþegum um borð.

Frétt mbl.is: Ættingjar leita að ástvinum sínum

Tala látinna hefur hækkað undanfarna daga, en á laugardaginn sögðu embættismenn að 60 manns hið minnsta hefðu látist í slysinu. Tilkynnt var um þjóðarsorg í dag í Kamerún vegna slyssins og hefur fánum verið víða flaggað í hálfa stöng í landinu. Þá hafa messur verið skipulagðar um allt land að því er segir í fréttinni.

Forseti Kamerún, Paul Biya, sneri heim í gær eftir að hafa verið erlendis í mánuð. Sagðist hann við heimkomuna hafa kallað eftir því að rannsóknarnefnd yrði skipuð til þess að rannsaka slysið.

Frá slysstað á föstudaginn.
Frá slysstað á föstudaginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert