Mega ekki geyma öskuna heima

Francis páfi hefur skrifað undir skjal sem tilgreinir viðmiðunarreglur um …
Francis páfi hefur skrifað undir skjal sem tilgreinir viðmiðunarreglur um varðveislu ösku. Mynd/AFP

Vatíkanið hefur birt reglur þar sem fram kemur að ösku látinna ástvina skuli komið fyrir á helgum stað á borð við kirkjugarð. Útskurðurinn þýðir að kaþólikkar mega samkvæmt reglum kirkjunnar ekki geyma ösku fólks heima við, dreifa henni á táknrænum stöðum, skipta á milli fjölskyldumeðlima eða búa til annars konar minjagripi.

Í frétt The Guardian um tilkynningu Vatíkansins kemur fram að fleiri og fleiri kaþólikkar velji að vera brenndir frekar en grafnir. Vatíkanið varar við „nýjum hugmyndum sem fara gegn trú kirkjunnar“ og sagði kardínálinn Gerhard Müller að greftrun í kirkjugarði væri æskilegri en líkbrennsla. „Af jörðu erum við komin og að jörðu skulum við aftur verða.“

Þó að Vatíkanið mæli enn eindregið með greftrun kom fram á blaðamannafundi í Róm í dag að vegna þess að líkbrennslur væru sífellt algengari þyrftu að vera til viðmiðunarreglur um vörslu öskunnar.

Askan skal geymd „á heilögum stað, sem sagt í kirkjugarði, kirkju eða á öðrum stað sem ætlaður er sérstaklega til þess tilgangs. Varðveisla ösku á heimilum er ekki leyfð“. Þá tók hann einnig sérstaklega fram að hvers konar algyðistrúarlegar, náttúrufræðilegar eða níhílískar athafnir á borð við dreifingu öskunnar eða umbreytingu í minjagripi væru bannaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert