Stöðvuðu sendingu á 450 milljónum dollara

Aðgerðum Interpol var beint gegn póst- og hraðsendingum á ólöglegum …
Aðgerðum Interpol var beint gegn póst- og hraðsendingum á ólöglegum vopnum, peningum, póstávísunum og ferðatékkum. Mynd/Interpol

Interpol lagði hald á rúmlega 460 milljónir dollara og um 300 skotvopn í aðgerðum lögreglu gegn smyglurum. Stærstur hluti fjárins og vopnanna fannst í Mexíkó, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir Jürgen Stock, yfirmanni Interpol.

„Með þessari aðgerð hafa milljónir dollara og hundruð vopna verið tekin úr höndum skipulagðra glæpasamtaka og mögulega hryðjuverkahópa líka,“ segir í yfirlýsingu frá Stock. Áhlaupið var afrakstur fjögurra vikna lögregluaðgerðar sem Stock sagði sýna vel hverju mætti áorka með nánu samstarfi.

Aðgerðunum var beint gegn póst- og hraðsendingum á ólöglegum vopnum, peningum, póstávísunum og ferðatékkum. Stærsti fundurinn var þegar tollverðir í Toluca í Mexíkó stöðvuðu sendingu á 450 milljónum dollara.

Hald var lagt á sendingar á lykilstöðum í þeim löndum sem tóku þátt í aðgerðinni, sagði í yfirlýsingu Interpol, sem fór ekki út í nánari útskýringu á hvað í því hefði falist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert