Kjörsókn Clinton í hag

Hillary Clinton, sem fagnar 69 ára afmæli í dag, er …
Hillary Clinton, sem fagnar 69 ára afmæli í dag, er stödd í Miami í Flórída þar sem utankjörfundarkosning hefur farið vel af stað. AFP

Þrátt fyrir að enn séu þrettán dagar þar til Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta eru stjórnmálaspekingar nú þegar farnir að spá fyrir um úrslit kosninganna með tilliti til kjörsóknar.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum hafa yfir níu milljónir Bandaríkjamanna greitt atkvæði utan kjörfundar. Það er að sjálfsögðu lítið brot, sérstaklega miðað við þær 129 milljónir sem greiddu atkvæði í forsetakosningunum árið 2012, en hvernig atkvæðagreiðslan fer af stað getur hins vegar gefið ýmsar vísbendingar um niðurstöður kosninganna.

Anthony Zurcher, fréttaritari BBC í Bandaríkjunum, segir að utankjörfundaratkvæðagreiðslan lofi góðu fyrir Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins.

„Þar sem mörg ríki gefa upp flokksstöðu þeirra sem kjósa vitum við að demókratar og repúblikanar eru hnífjafnir í Flórída, sem er gott fyrir Hillary Clinton, þar sem repúblikanar í ríkinu mæta almennt snemma á kjörstað.“

Zurcher segir einnig að kjörsókn í Colorado og Nevada gefi til kynna að Clinton muni ná góðri kosningu þar, þar sem þeir fjölmenna á kjörstað.

Í Iowa, ríki þar sem Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, þarf nauðsynlega á sigri að halda, fer kjörsókn hægt af stað, sem gæti komið sér vel fyrir Trump.

Zurcher ítrekar þó að ekki sé hægt að fullyrða um niðurstöður konsinganna út frá þessum tölum. Skoðanakannanir gefi hins vegar til kynna að Clinton haldi forskoti sínu.

Hér má sjá samantekt yfir skoðanakannanir sem BBC heldur úti, en samantektin inniheldur fimm nýjustu kannanir í Bandaríkjunum og tekur tillit til miðgildis niðurstaða þeirra. Eins og er nýtur Clinton 50% stuðnings kjósenda en Trump 45%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert